Airwaves 2010

Ég sá svolítið eftir því í kringum Airwaves hátíðina að hafa ekki skrifað um fyrri hátíðir sem ég hef farið á. Ég gerði létta leit á síðunni og fann ekki pósta um fyrri hátíðir. Sem er synd.

Mig langaði því að rifja upp fyrir sjálfum mér nýliðna hátíð, sem lauk hjá mér á laugardagskvöldið síðasta. Heilt yfir var ég nokkuð ánægður með hátíðina, þó svo það séu alltaf einhver bönd sem valda vonbrigðum og að raðirnar komi manni alltaf jafn mikið á óvart. Airwaves er ótrúlega skemmtilegur og mikilvægur viðburður í skemmtanaflórunni hérna á skerinu og stemningin sem myndast í bænum er virkilega skemmtileg. Einhvers konar notalegur og jákvæður andi sem svífur yfir öllu, dregur saman ólíkt fólk á öllum aldri og skapar  líf og mikla gleði í bæjarlífið.

Nóg um það. Hátíðin hófst á miðvikudegi hjá mér þar sem við Stefán kíktum saman á Venue til að hlýða á hljómsveitina Miri og Benna Hemm Hemm. Sem fyrr segir koma raðirnar mér alltaf jafn mikið á óvart, en að það væri pakkað á Venue og Sódóma á miðvikudegi og röð langt eftir Tryggvagötunni kom alveg flatt upp á mig. Við Stebbi skemmtum okkur þó nokkuð vel í troðningnum á Venue. Miri voru virkilega þéttir og skemmtilegir en Benni Hemm Hemm hreif mig ekki þetta kvöldið. Hef reyndar ekki verið yfir mig heillaður af honum til þessa, þó einhverjir af „La-la“ köflunum hjá honum fái mann til að brosa með. Fínt fyrsta kvöld sem reyndar lauk aðeins fyrr en við ætluðum þar sem hitinn og troðningurinn á Venue kallaði á brottför 2-3 lögum fyrr en ráðgert var.

Fimmtudeginum eyddi ég í Álfkonuhvarfi með dætrum mínum og sótti þar með inneign fyrir helginni sem ávallt er hápunktur hátíðarinnar í mínum huga. Á föstudeginum var ég því mættur nokkuð tímalega í Hafnarhúsið þar sem ég hugðist m.a. hlýða á Hurts og Dikta. Ég eyddi öllu kvöldinu í Hafnarhúsinu og sá þar til að byrja með Feldberg og Dikta skila virkilega góðu verki. Hef mjög gaman af „feel-good“ tónlistinni hjá Feldberg og þau stóðu sig nokkuð vel og sköpuðu skemmtilega stemningu. Á eftir þeim fylgdi vinsælasta hljómsveit landsins um þessar mundir og þeir voru magnaðir. Virkilega þéttir og skiluðu óaðfinnanlegum tónleikum þar sem fjöldinn tók undir í helstu slögurum svo undir tók í bænum. Ég hafði það á orði eftir þeirra framlag að breska hljómsveitin Everything Everything væri heppin að fá húsið svona vel upp hitað. Ég hef ekkert hlustað á það band og veit því ekkert hvort þeir áttu „off“ dag, en þeir nýttu a.m.k. hitann í húsinu ekki vel. Kældu að mínu mati fjöldann vel niður með frekar leiðinlegu atriði. Ég fjárfesti líklega ekki í disknum að svo stöddu. Á eftir þeim mætti önnur bresk hljómsveit á svæðið, líklega það atriði sem flestir höfðu beðið eftir. Hljómsveitin Hurts byrjaði á því að skila sínum tveimur frægustu lögum á fyrsta korterinu, en slógu hvergi af eftir það og áttu mjög góða tónleika. Ég fór því nokkuð sáttur heim eftir gott kvöld.

Á laugardagskvöldi var væntanleg sú hljómsveit sem ég hafði beðið hvað spenntastur eftir, bresku strákarnir í Bombay Bicycle Club. Ég fór ásamt Stefáni, Guggu, Jóni og fleirum í Hafnarhúsið þar sem þeir áttu leik síðar um kvöldið. Við raunar hituðum upp með léttum mat á Sólon þar sem Tinna borðaði með okkur. Henni bauðst miði á Airwaves fyrr um daginn, en hefur litla löngum til að standa innan um sveitta tónleikagesti næturlangt og lét því  matinn nægja. Til að forðast raðir ákváðum við að vera ekki að flakka á milli staða og kom síðar í ljós að það var hárrétt ákvörðun, enda heyrðist af allt að 3 klst. bið í röð fyrir utan Hafnarhúsið.

Þegar við mættum var strax orðin nokkur seinkun á dagskránni sem er óheppilegt á Airwaves, sér í lagi ef unnt væri að flakka með góðu móti á milli staða án mikilla raða… Bang Gang gang voru að hefja leik og heilluðu mig ekki sérstaklega. Það heyrðist vel að Barði er góður lagasmiður en flutningurinn var að mínu mati ekki til útflutnings eins og einhvers staðar var sagt. Á eftir Bang Gang fylgdi breska hljómsveitin Tunng sem ég hafði ekki hlustað á fyrir tónleikana. Ég var virkilega heillaður af þeirra framlagi og mun klárlega bæta þeim við á „playlistann“ hjá mér. Bombay Bicycle Club voru næstir á svið og ollu mér ekki nokkrum vonbrigðum. Þeir voru þéttir og skemmtilegir, en sú staðreynd að þeir spiluðu aðallega efni af fyrri og fjörugri plötu sinni vakti nokkur vonbrigði hjá einhverjum tónleikagestum. Þó held ég að flestir hafi tekið vel undir í þekktari lögum sveitarinnar, sérstaklega undir lokin þegar „Always Like This“ hljómaði. Það er svolítið fyndið þegar ekki stærri sveit en Bombay mætir á svæðið og sleppir nokkrum af frægustu lögum sínum, en ég hafði lúmskt gaman af því… og er ekki frá því að þeir sjálfir líti nógu stórt á sig til að halda þannig tónleika. Á eftir Bombay hélt húsið áfram að fyllast enda virtust ótrúlega margir mættir til að hlusta á Robyn. Ég var því nokkuð spenntur þegar hún mætti á svið með vígalegri og reykfylltri innkomu. Það tók þó ekki nema 2-3 lög fyrir mig að átta mig á því að ég væri þarna kominn út fyrir mitt „tónlistarlega comfort zone“ og sem betur fer voru samferðarmenn mínir á sama máli. Við héldum því út í nóttina og leituðum að stystu röðinni í nágrenninu. Gugga dró okkur Stebba í átt að Nasa og okkur að óvörum komumst við beint inn án biðar, rétt í þann mund sem Retro Stefson voru að hefja leik.

Á Nasa náði hátíðin þetta árið hápunkti hjá mér enda var atriði RS hreint ótrúlega hresst og stemningin á Nasa engu lík. Auðvitað hjálpaði eitthvað til að bjór hafði verið vel sinnt allt kvöldið og því var maður líklega sérlega móttækilegur fyrir framlagi sveitarinnar. Við horfðum svo á eitt og hálft lag hjá sænsku hljómsveitinni The Amplifetes og tókum aftur ákvörðun um að kveðja sænskt framlag þetta kvöldið. Frábæru Airwaves lokið og ekki nema ár að bíða næstu hátíðar…

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s