Fréttaskot

Það hefur verið lítið um fréttir af fjölskyldunni uppá síðkastið og verður reynt að bæta úr því hér. Við höfum haft nóg fyrir stafni síðustu mánuði og m.a. farið í stutta heimsókn til ömmu og afa á Tenerife, haldið uppá 30 ára afmæli og heimsótt leikhús borgarinnar svo eitthvað sé nefnt.

 Stelpurnar eru á fullu í skólunum og gengur báðum ljómandi vel. Signý Hekla unir sér vel á Ásum og hefur að okkar mati tekið stórstígum framförum síðustu mánuði, eins og barna á hennar aldri er líklega siður. Það hefur ætíð þurft að hafa talsvert fyrir því að láta Signýju Heklu borða, en síðustu mánuði hefur hún bætt talsvert við sig á þessum vígstöðum og er nú orðin líkari matháknum systur sinni. Það er þó ekki svo að það sé ekki oftast mikið fjör og læti í matartímunum, en líklega fylgir það þessu aldursskeiði sem okkar kona er á. Signýju Heklu leiðist síður en svo að tala og bætir sífellt við sinn annars mikla orðaforða. Hún er ennfremur alltaf að átta sig betur og betur á því hvað það er gaman að hafa orðið og því orðin nokkuð dugleg í því að segja „uss.. hlustiði á mig“ inn á milli þess sem hún segir sögur. Sögur og lög eru enda framleidd í bílförmum þessa dagana og ljóð eins og Maístjarnan, Sunnan yfir sæinn breiða og Vögguvísa Lilla klifurmúsar í miklu uppáhaldi. Í janúar hóf Signý þátttöku í íþróttaskóla Fylkis og hefur staðið sig vel þar. Henni finnst mikið sport að mæta á laugardagsmorgnum og láta ljós sitt skína í leikjum og þrautabraut í íþróttasal Árbæjarskóla.

Þórdísi Kötlu gengur líka vel á sínum vígstöðum. Starfið í Barnaskóla Hjallastefnunnar hefur heldur betur staðist okkar væntingar og þar unir daman sér afskaplega vel í skemmtilegum stúlknabekk. Hún les og skrifar af miklum móð og miðað við verkefnin sem við höfum séð hana vinna síðustu daga sýnist okkur sem hún eigi eftir að spjara sig ágætlega í 6 ára bekknum í haust. Hún fór annars í kynningu í Vatnsendaskóla um daginn ásamt pabba sínum og fékk að sitja inni í 6 ára bekk í tvær kennslustundir. Þetta þótti henni mjög spennandi og hlakkar að eigin sögn mikið til þess að byrja í skólanum í haust. Okkur líst líka vel á skólann og auðveldar það þá ákvarðanatöku að færa hana, því við vorum nokkuð óviss með þá ákvörðun að færa hana úr Hjallaskólanum. Hins vegar erum við á því að það sé réttast að hún byrji strax með krökkunum úr hverfinu í skóla og eins spilar það inn í það kostar sitt að hafa barn í skóla í Garðabæ þegar maður býr í Kópavogi. Þórdís Katla hefur verið í píanónámi í vetur og finnst okkur hún hafa tekið miklum framförum. Áhuginn er að minnsta kosti mikill og ekki spillir fyrir að hjá afa Steina og ömmu Kollu er líka alltaf hægt að grípa í píanókennslu. Til viðbótar við þetta hefur hún verið tvisvar sinnum í viku í fimleikum hjá Gerplu og haft gaman af. Fimleikarnir eru líka æfðir alla daga og vart finnst það húsgagn í Álfkonuhvarfi sem ekki hefur verið nýtt sem fimleikaáhald á einhverjum tímapunkti.

Við Tinna höfum líka haft ýmislegt fyrir stafni síðustu mánuði en líklega ber hæst ferð fjölskyldunnar til Tenerife núna um páskana og svo afmælisveislan sem haldin var sameiginleg um miðjan marsmánuð. Við buðum vinum og ættingjum til veislu á lítið kaffihús í Kópavogi og áttum þar virkilega góða stund og notalegt kvöld. Í kjölfar afmælis undirritaðs var svo haldið til Tenerife í vikuheimsókn þar sem við fengum inni í íbúðinni hjá Kollu ömmu og Rögga afa á Las Floritas. Þetta var góð ferð sem nýtt var í afslöppun frá a-ö og flestum stundum eytt á ströndinni eða í sundlauginni á Floritas. Veðrið var æðislegt, ca. 25°C og sól að mestu leyti. Stelpurnar kunnu svo sannarlega vel við sig í hitanum og voru varla komnar upp í flugvélina á leiðinni heim þegar þær voru farnar að skipuleggja næstu heimsókn til ömmu og afa á Tenerife. Það eina sem hugsanlega skyggði á þessa góðu heimsókn var hið skelfilega gengi íslensku krónunnar sem stendur afar veik um þessar mundir eins og flestum ætti að vera kunnugt. Það er svo sannarlega áfall þegar maður gengur inn á McDonald’s og sér fram á að þurfa að borga tæpar 2000 krónur fyrir stjörnumáltíðina… en það þýðir ekkert að svekkja sig of mikið á því. Við Tinna ætlum a.m.k. ekki að leggja vegabréfið á hilluna og eigum framundan fleiri ferðir á fjarlægar slóðir. Tinna fer ásamt leikskólanum í heimsókn til Toronto í upphafi maímánaðar og svo ætlum við að heimsækja Stebba og Guggu í Edinborg í byrjun júní og hlökkum mikið til þessara ferða.

Látum þetta duga af fréttum í bili. Uppfærsla á myndum er reglulegri og hægt að skoða þar hvað fjölskyldan er að bralla… 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s