Samantekt

Eins og kom fram í fyrri færslu hef ég haft flest annað á prjónunum síðustu vikur en að blogga. Sumarið nálgast og þá minnkar hann eðlilega tíminn sem maður ver fyrir framan tölvuna. Mér til áminningar og öðrum til yndisauka ætla ég þó að rúlla yfir ýmislegt það sem gengið hefur á hjá okkur síðustu vikur.

Páskarnir komu og fóru, þetta ár sem hin fyrri. Fjölskyldan fékk inn á borð til sín 3 páskaegg og voru tvö þeirra tekin með trompi af mæðgunum Tinnu og Þórdísi Kötlu, enda við Signý Hekla að mestu í nammibindindum. Þriðja eggið hefur staðið óhreyft um langa hríð og veltir því líklega fyrir sér hvort það verði þeirrar óvenjulegu gæfu aðnjótandi að upplifa tvenna páska. Nokkuð sem páskaegg hafa ekki getað treyst á til þessa. Annars var páskafríið óvenju tilbreytingalítið þetta árið þar sem við glímdum við veikindi sem fyrri daginn. Þessi vetur var (já, var…) hreint ótrúlegur í veikindum og páskarnir voru þar engin undantekning. Tinna og Signý Hekla veiktust í heimsókn í Sælu og var því brunað í bæinn eftir afar stutt stopp frá löngum föstudegi til laugardags. Við Þórdís Katla reyndum að gera okkur glaðari daga og skelltum okkur m.a. í páskamessu í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum og á skauta. Þeir sem hittu okkur á svellinu þann daginn eru líklega enn að hlæja að pabbanum sem ekki gat staðið á skautum en hugðist samt kenna dótturinni undirstöðuatriði skautaíþróttarinnar.

Það var síður en svo að loknum páskum að veikindin hefðu sagt skilið við okkur. Fór það reyndar svo að Signýju Heklu var skipað í eyrnaaðgerð fyrir nokkrum vikum, þar sem sett voru rör í litlu dömuna. Hefur verið talsvert bjartara yfir Hvarfinu síðan þá og bæði skap og matarlyst litlu prinsessunar hefur batnað til muna. Nú er svo komið að síðustu daga hefur Signý Hekla borðað af því kappi sem við höfum einungis þekkt hjá systur hennar til þessa og eru allir fingur krossaðir um að svo verði áfram. Það verður að segjast eins og er að við vorum farin að hafa talsverðar áhyggjur af því hversu illa sú litla tók til matar síns. Hvort aukin lyst hjá henni er rörunum eða kokkknum að þakka skal ekki segja, en við erum sátt hver sem ástæðan kann að vera…

Það komu kosningar og við kusum bæði hjónin. Eins og svo margir aðrir hef ég sjaldan eða aldrei átt jafn erfitt með að velja flokk eins og í ár. Var það svo að ég sat fyrir framan tölvuna í langan tíma á kosningadaginn og las mér til, horfði á viðtöl osfrv. Á endanum komst ég að niðurstöðu sem ég vona að hafi verið sú rétta. Það kemur líklega í ljós á næstu mánuðum.

Fyrstu viku maí mánaðar kom ferð til Bretlands óvænt upp. Ég hafði haft augastað á því að heimsækja Lundúnabúana Jón og Ástu en ekki fundið rétta tímann til þess. Þegar Jón mætti til landsins undir lok aprílmánaðar kom upp sú hugmynd að ég færi til þeirra í tengslum við síðari leik Arsenal og United enda gat Jón útvegað miða á þann leik. Við fyrstu skoðun reyndist hins vegar flugið vera nær árinu 2007 í verði, a.m.k. fjarri því sem maður leyfir sér á krepputímum. Því var það sem sannkölluð himnasending þegar Iceland Express sendi mér tilboð í netpósti og ég bókaði einstaklega hagstætt flugar ásamt Stefáni út. Við skelltum okkur því til skötuhjúanna í Kensington frá mánudegi til miðvikudags og áttum þar sérlega góðar stundir. Leikurinn var eftirminnilegur, bæði fyrir frábært andrúmsloft í byrjun leiks sem og góða frammistöðu minna manna. Þrátt fyrir veikburða krónu gerðum við nokkuð vel við okkur í mat og drykk og undirritaður greiddi Bretum til baka nokkur pund í formi fatakaupa.

Fyrir utan þetta hefur fjölskyldan reynt að njóta vorsins og fyrstu daga sumarsins, sem heldur betur komu núna í vikunni. Við skelltum okkur í sveitaferð í gær á Bjarteyjarsand, en þangað hefur leikskólinn hennar Þórdísar Kötlu farið síðustu 2 ár. Ferðin í gær var sérlega vel heppnuð, veðrið frábært og þátttaka góð. Signý Hekla lék á alls oddi í rútuferðum til og frá Bjarteyjarsandi, skemmti sér vel innan um dýrin (þó hún vildi halda sig í hæfilegri fjarlægð frá þeim flestum) og svaf svo vært þegar þess var óskað. Þórdís Katla fékk sinn skammt af fjöruferð, sauðburði og heysátuhoppi og var hin hressasta með daginn. Þó hefur hún lítið breyst þegar kemur að samskiptum við dýrin og vill helst halda sig í öruggri fjarlægð frá þeim eins og systir hennar. Voru það því tvær smeykar stelpur sem horfðu á pabba sinn halda á litlu lambi í hlöðunni. Pabbinn hins vegar fann bóndann í sér og kunni vel að meta kynnin við litla krúttlega lambið. Merkilegt að maður geti étið þetta 🙂

Myndir væntanlegar inn fljótlega.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s