Fréttir úr Hvarfinu

Sit hérna einn í kotinu og fylgist með Íslandsmótinu í badminton. Kominn með glósubókina á loft og tilbúinn að meðtaka tæknina frá íslensku meisturunum. Við höfum verið sérlega dugleg í badmintoninu í vetur og tekið miklum framförum held ég. Þannig er ég viss um að við Tinna hefðum ekki sigrað Stefán og Jón í upphafi vetrar en sú varð einmitt raunin þegar þeir mættu í stað Elínar og Árna í eitt skiptið í marsmánuði. Verður þetta tap þeirra félaga gert að umtalsefni nokkrum sinnum á þessu ári hér á síðunni. Það sýndi sig reyndar að hægt er að taka örum framförum í þessu sporti því þegar Stebbi mætti viku síðar var allt annar bragur á honum, þangað til hann varð fyrir því óláni að meiðast í kálfa við “smash”. Gaman að sjá gömlu kempuna Brodda Kristjánsson í þessu. Ég er ekki frá því að við höfum svipaðan stíl :).

Annars er ég hérna einn þar sem Tinna og Þórdís Katla skelltu sér í Bláfjöll á skíði. Signý Hekla sefur vært í vagninum. Þórdís Katla er búinn að bíða spennt eftir því að geta komist í fjallið enda fékk hún send skíði í vikunni frá Þýskalandi. Amma hennar tók sig til og gekk frá kaupum á glæsilegum skíðum á þýskri útgáfu E-Bay síðunnar.

Ég átti eftir að segja frá sérlega góðum afmælisdegi mínum hér á síðunni, en árin urðu 29 sl. laugardag. Afmælisgjöfin frá Tinnu og stelpunum var ekki af lakara taginu. Ég var vakinn upp með afmælissöng og morgunmat í rúmið og sagt að drífa mig þar sem mín biði nuddtími í Laugum. Þangað fórum við Tinna svo og fengum sitthvorar 60 mínúturnar af nuddi og slöppuðum í kjölfarið af í Spa-inu. Virkilega góður dagur það. Fékk svo fjölskylduna í mat um kvöldið þar sem boðið var upp á mexíkóska súpu.

Annars ekki mikið að frétta af fjölskyldunni. Þó kom það í ljós í vikunni að líklega verða stelpurnar allar í Hjallastefnuskólum á næsta ári. Signý Hekla flyst af Litlu-Ásum yfir á Ása og líklegt er að Tinna fylgi henni þar á milli. Þórdís Katla fékk svo staðfestingu á skólavist í barnaskólanum og hefur því nám í 5 ára bekk skólans í haust. Hún er ekki lítið spennt yfir því og kemur mér mjög á óvart ef til er sá einstaklingur sem hún hefur hitt síðustu daga sem ekki hefur fengið fréttirnar af því að nú sé hún að fara í skóla. Við erum líka sérlega ánægð með þetta fyrirkomulag enda kunnum við vel að meta það andrúmsloft sem ríkir innan Hjallastefnuskólanna. Þar fyrir utan finnst okkur Þórdís Katla hafa gott af því að færa sig til enda farin að finna fyrir pínulitlum leiða hjá henni á Sólhvörfum.

Sjálfur hef tók ég einn knattspyrnuleik til viðbótar í vikunni. Skilaði 80 mínútum sem lánsmaður hjá Hetti, í æfingaleik gegn B-liði Stjörnunnar. Það er súrt frá því að segja að ég glímdi enn við harðsperrur eftir leikinn helgina áður, en gat samt skokkað með og gert eitthvað gagn. Finn að formið er að koma smám saman og þá verður líka ennþá skemmtilegra að spila. Það verður þó að segjast eins og er að stundum er súrt að átta sig á því að krafturinn í fótunum er ekki alveg jafn mikill og hugurinn heldur. Hreint ótrúlega skrýtin tilfinning sem erfitt er að lýsa. Hef stundum lent í því í þessum leikjum að sjá fyrir sendingu hjá mótherjum og stökkva af stað. Í kjölfarið á sér stað ofmat á eigin hraða sem veldur því að maður er of seinn í hlaupinu og situr eftir lítandi frekar illa út. Erfitt að lýsa þessu en þetta eru svona aðstæður þar sem maður hefði litið ágætlega út fyrir 3 árum en verður hálf kjánalegur í dag…

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s