Föstudagsbabbl

Enn og aftur kominn föstudagur. Vikurnar gætu líklega ekki liðið hraðar. Búið að bralla heilmargt í Hvarfinu síðustu daga. Síðastliðna helgi afrekaði ég það t.d. að spila badminton við föður minn og fara með sigur af hólmi. Ástæðan fyrir því að því er komið að hér er sú að mér telst svo til að þetta sé í fyrsta skipti sem ég fer með sigur af hólmi í keppni okkar á milli. Kannski að einhverjum spilum undanskildun. Er enn að jafna mig eftir ferðina góðu sl. haust, þar sem mér var rúllað upp í golfi, lyftingum, spilakössum og pooli. Það var því sérlega sætt að komast að því að ég ætti eitthvað í kallinn í badminton. Pabbi má þó eiga það að hann tileinkaði sér þann góða sið að mæta sigurviss til leiks og fullvissa mig um að ég myndi tapa. Kann jafn vel að meta slíkt og það fer í mig þegar fólk tekur þátt í keppni og byrjar að búa til afsakanir fyrirfram. Það tekur einhvern veginn allt gamanið úr keppninni… Fór svo að sjálfssögðu í badminton í dag aftur og nú mættu skytturnar þrjár (Tinna, Árni og Elín) með.

Annars var síðasta vika afar leiðinleg hérna hjá okkur, þar sem Signý Hekla glímdi við eyrnabólgu og vírus. Mæli alls ekki með því. Hvorki fyrir börn né foreldra. Það á illa við mig að fá ekki óslitinn svefn og jafnvel enn verr við mig að heyra stelpurnar mínar gráta af verkjum. En nú er prinsessan öll að ná sér og allt kvef að mestu horfið úr Hvarfinu. Enda er stefnan sett á það strax í á morgun að trufla frænda minn litla, sem ég hef ekki séð síðan á fæðingardeildinni. Þórdís Katla tók 3 heljarstökk þegar hún frétti af sú heimsókn væri hugsanlega á dagskránni.

Sá litli annars kominn með heimasíðu fyrir áhugasama. Líklega lítið mál að grenja leyniorðið út úr systur minni: http://barnaland.is/barn/84408

En stelpurnar mínar sem sagt bara allar að hressast. Signý Hekla farin að babla nóg til að geta haldið úti útvarpsþætti. Farin að skilja nánast allt, að manni finnst og komin með orð yfir ótrúlega marga hluti. Flottasta orðið klárlega „bóboti“ (fótbolti).

Þórdís Katla er líka hress og kát þó svo við finnum fyrir smá fimleika- og leikskólaleiða þessa dagana. Ég hrósaði framförum leiksskólans einhvern tíma hér á síðunni, en er nú að komast á þá skoðun að hlutirnir séu hreint ekki að breytast nægilega hratt. Finnst talsverð óreiða ríkja innandyra og finn það líka á Þórdísi Kötlu að hún verður sífellt ósáttari við að drífa sig út á morgnana. Það er ekki gott. Enda erum við Tinna nú farin að skoða alvarlega þann möguleika að skipta um stað fyrir hana næsta vetur og höfum horft til 5 ára bekkjarins hjá Hjallastefnunni í því sambandi. Við viljum alls ekki troða henni ári á undan í skóla, því bæði erum við alls ekki hlynnt slíku fyrirkomulagi og enn síður þegar um er að ræða einstakling sem klárlega verður alltaf hæðarskertur eins og foreldrarnir. Fimm ára bekkur hljómar samt mjög vel og er í alvarlegri skoðun hér innanhúss. Fimleikaleiðinn gerir  síðan vart við sig annað slagið og eru viðbröð foreldranna misjöfn. Fimleikaþjálfarinn sjálfur er hæstánægð, enda eins furðulega og það hljómar lítill aðdáandi þess að dóttirinn leggi sportið fyrir sig. Sjálfur er ég hundfúll og sé ég Ólympíudrauminn minn fjarlægjast. Spaug! Vil samt endilega að ÞK sé dugleg í þessu þar sem þetta er svakalega holl og góð hreyfing fyrir hana.

Fullt af þjóðfélagsmálum til að tjá sig um en læt það að mestu ógert. Líst ágætlega á Framsóknarflokkinn þessa dagana. Er það ekki dæmigert fyrir þann flokk? Nær alltaf einhvern veginn að klóra til sín vinsældir með sniðugu PR starfi og hraðri nýliðun. Hef gaman af Sigmundi formanni, sér í lagi hvernig honum tekst smám saman að aftengja flokkinn við fortíðina. Það má læra mikið af þessu. Ríkisstjórnin heillar mig síðan afskaplega lítið. Ég vona að sjálfssögðu að þeim og þ.a.l. okkur farnist vel, en hef takmarkaða trú á framlagi sumra ráðamanna sem eru þar í forsvari. Fyrstu aðgerðirnar og ummælin hafa verið í anda vinstristefnunnar. Og eru mér lítt að skapi. Ég get t.a.m. ekki skilið hvernig heilbrigðisráðherra getur látið það vera sitt fyrsta verk að afnema innritunargjöld á spítala þegar öll rök hníga að niðurskurði í kerfinu. Því síður sé ég hvernig menntamálaráðherrann ætlar að breyta lánafyrirkomulagi LÍN nú þegar ríkiskassinn hefur sjaldan verið tómlegri. Ennfremur á ég erfitt með að skilja þessa endalausu hvalaumræðu. Margur maðurinn af erlendum uppruna hefur orðið á vegi mínum í gegnum árin, en enginn hefur kvartað við mig yfir hvalveiði okkar Íslendinga. Einhverjir hafa hnýtt í lögin hjá Björk og Sigurrós og einstaka maður gert grín að veðrinu eða að enskum framburði okkar á stafnum V. En ég held einhvern veginn að uppblásin ímyndaráhrif hvalveiði á ferðamennsku, í huga Steingríms Joð og félaga, sé í litlum tengslum við raunveruleikann. Það góða við ríkisstjórnarskiptin er reyndar það að nú hverfur öll spilling úr þjóðfélaginu og mannaráðningar innan ríkisins verða eingöngu byggðar á faglegum forsendum. Þó getur það líklega hjálpað að vera Ögmundsdóttir í einhverjum tilfellum. En það er líklega undantekning.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s