5 ára prinsessa

Lokið er afar annasamri helgi hjá fjölskyldunni í Hvarfinu. Þórdís Katla náði í dag þeim merka áfanga að fylla heil fimm ár, en það er draumsýn sem í hennar huga hefur um langt skeið jafngilt konungs- eða drottningartign. Nú er hún, eins og hún orðar það sjálf, loksins orðin fimm ára eins og stóru stelpurnar í kringum hana. Slíkum áfanga þurfti að sjálfsögðu að fagna vel og innilega og má segja að hátíðahöldin hafi staðið frá laugardegi og til dagsins í dag.

Á laugardag var tekið á móti 15 krökkum og nokkrum foreldrum í íþróttahúsi Árbæjarskóla. Settum við Tinna upp þrautabraut í íþróttasalnum og leyfðum frænkum, vinabörnum og vinkonum af leikskólanum að sprikla hvað mest þau gátu. Eftir pylsu- og kökuát í hliðarsal var haldið áfram undir öruggri handleiðslu okkar Tinnu þar sem m.a. var farið í stórfiskaleik, fallhlífasprell ofl. Voru átökin það mikil að nokkrar yngismeyjar báðu um hvíld sökum „hlaupastings í maga“ en það ku vera sjaldgæfur kvilli í þessum aldursflokki nú til dags. Við í fjölskyldunni skemmtum okkur a.m.k. vel og vonum að aðrir hafi haft jafn gaman af. Þessi ákvörðun að taka ekki á móti hersingunni í Hvarfinu er líklega með þeim betri sem við höfum tekið um ævina. Ég hefði ekki boðið í að fylgjast með þessum hlaupum á stofugólfinu og ganginum hér heima. Framkvæmdin gekk líka snuðrulaust fyrir sig enda með ömmu og afa í Álfaheiði í baklandinu og grunar mig að þau hafi verið nokkuð þreytt að kvöldi laugardags eftir bakstur, ungaeftirlit og frágang dagsins. Í gær var síðan tekið á móti ættingjum og vinum í léttu kökuboði hér heima. Það er því nokkuð þreytt fjölskylda sem horfir á þá Robba og Núnú (skúringagræjurnar) þrífa heimilið þessa stundina 🙂

Um helgina síðustu var haldin árleg árshátíð //Cyberg klúbbsins og er þörf á að gera henni skil á síðunni. Í anda kreppunnar var markmið nefndar þessa árs að draga útgjaldaseglin saman þó halda ætti uppi hinum háa gæðastimpli sem þessi dagur hefur haft á sér sl. ár. Verkið var því ærið en einstaklega vel leyst af þeim Brjánsa, Sæma og Svan sem sáu um skipulagninguna þetta árið. Dagurinn hófst í höfuðstöðvum Kapital þar sem snæddur var morgunverður og farið yfir árið sem leið. Hópnum var skipt í 2 lið sem öttu kappi í hinum ýmsu greinum það sem eftir lifði dags. Fórum við Stebbi fyrir sitthvoru liðinu. Fyrst var keppt í þeirri ágætu grein Fussball (fótboltaspili), en slíkt spil er að finna hjá þeim Kapital mönnum. Kom þar berlega í ljós að Svanur hefur haft það náðugt í vinnunni síðustu mánuði enda sýndi hann takta sem eiga hreinlega ekki að vera mögulegir með tré- eða plastköllum. Að loknu Fussballmóti var haldið í Safamýrina þar sem liðin kepptu í fótbolta, bandý og handbolta vítakeppni. Var hart tekist á og mjótt á munum, en lið Stebba leiddi 3-1 eftir þessar greinar. Skemmtilegasta keppni dagsins fór fram í klifurhúsinu við sundahöfn. Þar vorum við leiddir í gegnum ýmsar þrautir sem reyndust (daginn eftir sérstaklega) gríðarlega erfiðar. Okkur var þrælað út í armbeygjum, boðhlaupi og klifri og fór svo að lokum að mínu liði tókst að minnka muninn í 3-2 í þessari keppni. Var þá haldið á Laugaveg þar sem Gufubaðstofa Jónasar var heimsótt. Þar snæddum við Subway, slöppuðum af í gufu og háðum síðustu keppni dagsins – skákmót. Verandi með fyrrum skákmeistara Verzlunarskóla Íslands, Jón Eggert Hallsson, í mínum röðum var ég nokkuð viss um sigur í þeirri keppni. En krosstré geta víst brugðist og lið Stefáns tryggði sér frækinn sigur. Að lokinni góðri afslöppun í gufunni var haldið í Mosfellssveit til Svans þar sem makarnir mættu og snæddu með okkur dýrindis mat. Frábær dagur sem enn eitt árið verður erfitt að toppa fyrir næstu nefnd.

Í amstri gærdagsins tókst mér að sjálfssögðu að fylgjast með mínum mönnum leggja drög að enska titlinum enn eitt árið. Ég hafði fyrirfram verið nokkuð djarfur í vinnunni og spáð 3-0 sigri og fylltist satt að segja efasemdum þegar ég sá uppstillinguna hjá Ferguson fyrir leik. En kallinn er nokkurn veginn með þetta ennþá og sýndi að það var klókt að henda ferskum löppum inn á miðjuna enda virtust a.m.k. Ballack og Obi Mikel vera þungir eftir jólavertíðina. Nú er bara að vona að menn eyðileggi ekki þennan góða sigur með klúðri á móti Wigan á miðvikudag.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s