Home alone

Einn í kotinu. Stelpurnar mínar farnar í bústað austur fyrir fjall. Ferð íi Brekkuskóg ásamt tengdafjölskyldunni og fögnuður þar í tilefni af sextugsafmæli tengdaföðursins. Fregnir herma að bústaðurinn beri keim af byggingarári sínu, því herrans ári 2007. Já, mikið var nú gott að vera til árið 2007… Og það er auðvitað ágætt í dag líka.

Alveg er það merkilegt með hvers kyns mannfagnaði sem maður sækir þessa dagana. Allir virðast sammála um að svekkja sig ekkert á ástandinu í þjóðfélaginu, en alltaf leiðist umræðan í átt að efnahagsmálunum. Sjálfur er ég líklega oftar en ekki sekur um að leiða hana á þessar leiðinlegu slóðir. Oftar en ekki hugsanlega sekur um að tala mikið en segja fátt. En stundum hlusta ég líka bara. Það virðist svo skipta litlu hvor maður hlustar á umræðuna, tekur þátt eða leiðir hana… allt endar á sama veg. Í bölvuðu volæði. Allir vita auðvitað best hvað gera skuli næst, hver sé sekur og hvað það er nú sem „diskútera“ má í kringum þetta. Merkilegt samt hversu misjafnar lausnirnar eru á milli þeirra hópa sem maður hittir svo maður tali ekki um skúrkana. Björgvin G. á það t.d. til að vera frelsarinn sjálfur og „eini maðurinn með viti“ í ríkisstjórninni. Sá mikli heimspekingur sem hann er. Svo snýr maður sér við og þá er Björgvin skyndilega rangur maður, á röngum tíma – í kolvitlausu húsi. Heim(skur)spekingur líklega. Svona virðist það vera með flestar persónur og leikendur í þessum raunveruleikaþætti sem við tökum öll þátt í þessa dagana.

Þegar ég leggst á koddann á kvöldin er ég oftar en ekki frekar bjartsýnn. Ég veit ekki betur en ég haldi vinnunni enn um sinn og á meðan get ég líklega borgað mína reikninga, fætt mig og klætt. Breytist mínir hagir eitthvað er ekki ólíklegt að við tórum samt sem áður hérna í Hvarfinu. Eiginfjárhlutfall fjölskyldunnar breytist að vísu hratt til hins verra og lítið við því að gera, nema taka stöku svekkelsiskast. Heilt yfir samt engin ástæða til annars en að reyna að halda í bjartsýnina. Við erum hress og kát og það eru að koma jól. Ætla sem fyrr að reyna að hætta að pæla í efnahagsástandinu fram í febrúar. Og reyna að minna sjálfan mig á það að ræða um Dagvaktina næst þegar það ber á góma í fjölskyldu- eða vinaboði. Dagvaktin er fyndin.

Signý Hekla er farin að standa upp af sjálfsdáðum og ég búinn að missa hálft kíló í nýtilkomnu æfingaátaki mínu. Það er nú ekkert smá jákvætt. Ég ætlaði í ræktina áðan en komst ekki. Stefnan sett á morgunæfingu ef ég get hætt að krota hérna og komið mér í svefninn.

Í gærkvöldi voru yfirvofandi félagaskipti í Dalvík / Reyni rædd hér á heimilinu og tók húsfreyjan jákvætt í þessa furðulegu ákvörðun mína um að ganga til liðs við norðanmenn fyrir næsta sumar. Sjálfur skil ég stundum ekkert hvað ég er að fara með þessari ákvörðun, en finnst hún síðan liggja beint við þegar ég hugsa málið betur. Mig langar mikið að taka eitt tímabil í fótbolta innan deilda. Ég sakna fótboltans talsvert. Mig langar hins vegar lítið til að taka þátt í skipulögðum æfingum árið um kring og alls ekki til að vera of bundinn í „alvörunni“ í íslenska boltanum. Ég veit sem er að slíkt fyrirkomulag á lítið erindi í efri deildum hérna heima en tel að þetta geti ágætlega hentað í þriðju deildinni. Svo kemur bara í ljós í fyrsta leik hvort ég hitti naglann á höfuðið með það. Ég mun allavega koma mér í ágætis stand og sjá svo hvað setur. Nokkuð viss um að þetta eigi eftir að ganga ágætlega upp hvað varðar fjölskylduna, svona „one last time“ pæling þar. Og svo sé ég lítið annað í stöðunni en að D/R lyfti 3ju deildar dollu í lok sumars og taki þátt í a.m.k. átta liða úrslitum bikarkeppninnar. Það er svona líklegasta útkoman úr þessu eins og ég sé þetta í dag.

Jæja, svefninn kallar.

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s