Jólaundirbúningur

Undirbúningur jólanna er í fullum gangi í Hvarfinu. Líklega myndi einhver glotta út í annað og segja að það væri okkar von og vísa að hér væru jólin lögð upp í Excel. En svona erum við jú bara, eða kannski bara ég. Það er sem sagt búið að uppfæra viðtakendalista jólakorta í þar til gerðu Excel skjali og útbúa jólagjafalista ársins 2008 í öðru. Hef enga trú á að við gleymum gjöf þetta árið… en kannski korti.

Jólagjafirnar annars að mestu búnar, einungis 5 eftir og allar ættu þær að vera tiltölulega beint áfram (e. straight forward). Það vekur athygli hversu seint verslunareigendur hafa verið á ferðinni með jólainnkaup sín því mér virðist sem veikt gengi krónunnar á haustmánuðum hafi heldur betur skilað sér inn í verðlagið. Reyndar virðist sem íslenskar vörur hafi hækkað í takt, trúi ég varla að rektsrarkostnaður fyrirtækja hafi hækkað svona upp úr öllu valdi. En hvað veit ég?

Mér gekk óvenju illa að nálgast jólaandann í þetta skiptið og virtist litlu skipta þó svo iPodinn kyrjaði jólalög út í eitt, hér væri bakað í bílförmum og skreytt að jólanna sið. Hins vegar held ég að þetta sé allt að koma. Hvort sem það er snjórinn eða sú staðreynd að ég er nánast alveg hættur að fylgjast með fréttum veit ég ekki… En ég er að minnsta kosti að nálgast jólabarnið í mér.

Stelpurnar, aðallega Þórdís Katla, eru líka að verða spenntar. Um fátt er meira rætt en komu sveinanna sem týnast til okkar á næstu vikum. Reyndar hefur Þórdís Katla verið óvenju erfið við foreldra sína upp á síðkastið, sér í lagi þegar kemur að matar- og svefnmálum. Hefur þótt líklegt að einhver Grýlusonurinn skili kartöflu í skóinn hennar m.v. hegðunina sum kvöld. En það virðist lítið bíta á dömuna, sem nokkuð kokhraust segist bara taka henni fagnandi. Við sjáum hvað setur í þeim efnum. Annars er líklega í hæsta máta ósanngjarnt að tala um að hún sé erfið þegar maður hugsar um hversu þolinmóð hún er við litla skæruliðann Signýju Heklu. Eins yndisleg og litla krúttið okkar er þá jafnast hún á við 3 Þórdísar Kötlur í umfangi. Matartíminn í Hvarfinu er með skrautlegasta móti þessa dagana, þar sem ámóta auðvelt er að koma bitum upp í Signýju Heklu eins og að selja fasteign á Íslandi þessa dagana. Við reynum að telja okkur trú um að hún sé að taka augntennur en einhvern veginn held ég að það sé ekki raunin. Þar fyrir utan er hún orðin hálf móðursjúk (í orðsins fyllstu merkingu) þessa dagana og gerir þá kröfu að Tinna haldi á henni nánast frá morgni til kvölds…

Nú heyri ég að innan úr sitthvoru herberginu heyrist mikill hiksti. Það er því auðvitað rétt að koma því skýrt til skila að með þessu er ekki sagt að einungis sé hægt að kvarta yfir dömunum okkar, síður en svo. Flesta tíma sólarhringsins eru þær sem fyrr að framkalla bros hjá okkur foreldrunum. Þórdís Katla virðist eiga fyndnar setningar á lager, en því miður gleymir maður einhvern veginn alltaf að punkta hjá sér gullkornin. Signý Hekla virðist líka ætla að verða mikill prakkari og virðist nú þegar komin upp á lag með að stríða foreldrum sínum. Hún er líka sérlega dugleg að sofa þessa dagana, þrátt fyrir að hafa vaknað kl. 05:22 að morgni sunnudagsins síðasta! Aðra daga sefur hún nánast í einum dúr í 12-13 tíma í sínu eigin herbergi.

Jæja, kvöldið að mestu farið í jólakortaundirbúning þessa árs og fljótlega hægt að krota enn eitt verkefnið út af Excel listanum.

Tvö ný albúm komin á myndasíðuna fyrir þá sem ekki tóku eftir því…

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s