Bakaradrengurinn

Fjölskyldan í hvarfinu á í einhverjum vandræðum með myndavélina. En þegar við leysum úr þessu set ég klárlega inn myndir af piparkökuhúsinu sem ÉG bakaði um helgina. Laugardagurinn í Hvarfinu fór nefnilega að mestu í bakstur. Húsmóðirin vaknaði sjö um morguninn (já, sjö um morguninn!) og hóf þá af miklum myndarskap að útbúa konfekt og spesíur, en þær hafði hún undirbúið kvöldið áður. Kvöldið áður lagði Tinnai einnig í þrefalda uppskrift af piparkökum og því beið okkar heljarmikið verk þennan laugardag.

Sjálfur var ég ekki alveg jafn morgunhress og mæðgurnar, enda skilaði ég mér seint heim af jólahlaðborði Þekkingar kvöldið áður. Við hittumst vinnufélagarnir á Hótel Óðinsvéum og áttum góða stund á glæsilegu hlaðborði. Undirritaður var einstaklega rólegur þetta kvöldið og tók lítinn þátt í öldrykkju vinnufélaganna (sem er alltaf gott morguninn eftir) og ók ég að lokum vinnufélögum mínum þeim Halli og Auðunni heim síðla nætur.

En ég hefði líka ekki viljað vera illa sofinn í gær þegar baksturinn hófst, enda heljar verk að útbúa piparkökukarla og -kerlingar úr öllu þessu deigi sem Tinna hafði útbúið. Sem fyrr segir gerði ég líka annað árið í röð tilraun við piparkökuhús og held að nokkuð vel hafi tekist til. Þó er augljóst rúm til bætingar og stefni ég nú á þátttöku í Smáralindinni í desember 2014 og tek árlega æfingu fram að því. Þórdís Katla, Signý Hekla og Tinna Dögg frænka þeirra skemmtu sér vel við baksturinn, enda fengu þær nokkuð frjálsar hendur við útskurð og skreytingar. Er ég nokkuð viss að jafn mikið af piparkökumálningu hafi endað á borði og gólfi eins og á kökunum sjálfum. En það er auðvitað ólympíuhugsunin sem gildir í þessu öllu saman og hún sveif svo sannarlega yfir vötnum í gær hjá mér og stelpunum.

Í morgun vorum við svo mætt í 65 ára afmæli til Addýjar ömmu/langömmu, en hún bauð fjölskyldunni til jóla-hádegisverðar í turninum. Var það sérstaklega notalegt og maturinn virkilega gómsætur. Fannst þó vanta svolítið uppá „klassíkina“ á matseðlinum og saknaði m.a. hangikjöts og grafins lax. En það sem á borð var borið var fyrsta flokks.

Til viðbótar við þetta allt saman er að mestu búið að skreyta heimilið og held ég að segja megi að Tinna eigi skuldlausan heiðurinn af þessari miklu jólaframleiðni. Við hin höfum lagt eitthvað af mörkum en Tinna hefur minnt á Mörtu Stewart síðustu daga og er ég þá auðvitað að benda á myndarskapinn í henni en ekki bendla hana við fjármálamisferli. Það er nóg af því annars staðar í þjóðfélaginu.

En þrátt fyrir þessi miklu „jólaafrek“ þá lætur jólaandinn einhvern veginn á sér standa. Er þess fullviss að ég hafi oft og jafnvel oftast verið í miklu meira jólaskapi á þessum tíma. Það hlýtur að fara að detta inn.

Nýlega bættist nýr meðlimur við fjölskylduna í Hvarfinu og hefur hann fengið nafnið Robbi. Um er að ræða iRobot, sem er skúringarvélmenni af flottustu gerð. Tengdaforeldrarnir og mágkona mín færðu okkur Tinnu þetta í síðbúna brúðkaupsgjöf og var Robba strax tekið opnum örmum. Enn sem komið er getum við ekki kvartað yfir framlagi vélarinnar sem skúrar hér af miklum móð frá morgni til kvölds með miklum ágætum. Segi líklega meira frá Robba síðar.

Vonast síðan til þess að geta sagt meira frá afrekum Signýjar Heklu í næstu færslu en hún er aaalveg að verða búin að læra að labba. Nú stendur hún sjálf án aðstoðar og hefur svo tekið allt að 10 skref á milli okkar Tinnu. Ekki rétt að segja að hún sé göngufær ennþá… en mikið styttist það. Það má því búast við að afskrifa þurfi talsvert af heimilismunum áður en árið er liðið.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s