Skilvirk helgi í Hvarfinu

Komst ekki hjá því að fá pínu kjánahroll í nokkur skipti við áhorf á Edduna áðan. Hann vann sig hægt inn í gegnum þáttinn, enda við Íslendingar einhvern veginn ekki alveg að ná Hollywood væmninni á þessum hátíðum okkar. Hrollurinn var svo hámarkaður þegar stelpurnar í kvennalandsliðinu voru dregnar á svið til þess eins að smella kossi á Friðrik Þór. Maður hálf vorkenndi þeim að vera þarna í hallærislegu hlutverki sem síðan toppaði sig þegar þeim datt í hug að tollera kallinn. Sérstakt.

Helgin annars búinn áður en hún byrjaði eins og oft áður. Er ekki að komast yfir það þessa dagana hvað tíminn líður hratt. Við náðum samt að áorka heilmiklu hérna á heimilinu, endurskipulögðum m.a. herbergjaskipan og er Signý Hekla nú komin í sitt eigið herbergi. Hún á ekkert minna skilið daman, búin að standa sig eins og hetja í svefninum síðustu daga. Sofnar nú orðið sjálf og sefur nánast í heilum dúr langt fram á morgun á hennar mælikvarða (til ca. 8). Herbergjafléttan var af flóknara taginu, því þegar við vorum hálfnuð við að breyta sjónvarps-/tölvuherbergi í barnaherbergi þá sá Þórdís Katla að það stefndi í að nýja herbergið toppaði hennar gamla. Lagði hún því fram tillögu um að þær systur myndu skipta á herbergjum og ÞK fengi nýja herbergið, sem er með aðeins bleikari gardínum og bleikri gardínustöng til viðbótar. Að öðru leyti eins! Signý Hekla hreyfði ekki við sérstaklega skýrum mótmælum og er því í gamla herberginu hennar Þórdísar Kötlu, en virkar nokkuð sátt.

Harkan í okkur í gærdag varð til þess að ég náði lítið að fylgjast með boltanum og fagnaði því bara úrslitum helgarinnar sem voru nokkuð góð. Liverpoolmenn virðast ætla að hanga óvenju lengi inn í baráttunni þetta árið og verða líklega við toppinn fram í miðjan janúar með þessu áframhaldi. Auðvitað verður þetta svo bara barátta United og Chelsea síðustu mánuðina. Mínir menn sannfærandi í gær býst ég við, a.m.k. 3 stig og fimm mörk í plús í húsi.

Sjálfur eyddi ég gærkvöldinu með sérlega góðum hópi manna. Gamlir Valsspilarar hittust, hópur sem kallar sig Totuna af ástæðum sem ekki verða skýrðar hér á síðunni. Við hófum leik í Sporthúsinu, þar sem skipt var í tvö og spilaður fótbolti af dýrara taginu. Undirritaður fór að sjálfssögðu með sigur af hólmi, þrátt fyrir að þurfa að spila í lánsskóm af Stefáni Helga. Fyrir þá sem ekki þekkja til er Stebbi með breiðari lappir heldur en flestir froskar heimsins og því hefði ég auðveldlega getað notað annan skóinn af stráknum ef ég hefði kosið að hoppa þannig um. En frammistaða míns liðs var sannfærandi og munaði kannskii mest um það að einu úrvalsdeildarspilararnir í hópnum voru okkar megin. Í framhaldinu gerðu menn sér glatt kvöld sem endaði á ágætri bæjarheimsókn.

Annars bar það til tíðinda að mér tókst næstum að sannfæra Jóhann Hreiðarsson, þjálfara 3. deildarliðs Dalvíkur / Reynis um að taka við nýjum leikmanni fyrir næsta tímabil. Hálfnað verk þá hafið er og nú mun ég leggja hart að mér í þriðjudagsboltanum til að sannfæra kallinn um ágæti mitt. Hef sem sagt verið að gæla við það að spila einhvern bolta næsta sumar og þetta gæti orðið ágætis lending… hvernig svo sem útfærslan yrði á því.

Skil annars ekki þetta dæmi með skemmtiþátt ársins á Eddunni. Útsvar?? Ágætur fótboltamaður stóð víst einhverju sinni upp á verðlaunaafhendingu hjá KSÍ þegar val í einhverjum flokki hafði verið tilkynnt og spurði hátt og snjallt „ætlar enginn að segja djók??“. Sú saga kom strax upp í hugann á mér þegar Sigmar og Þóra gengu í átt að styttunni. En þótt enginn segði „djók“ er ég viss um að hálfur salurinn hugsaði það. Kannski ekki um auðugan garð að gresja í þáttunum hérna heima, en Ragnhildur Steinunn náði sér a.m.k. á flug í gær og hefði verið eðlilegra val. Hef reyndar verið lítt hrifinn af hennar framlagi í Góðu kvöldi en þátturinn í gær var góður. Það féllu m.a.s. tár í Hvarfinu og aftur í morgun í endursýningunni. Það hlýtur að telja eitthvað.

Icesave í höfn og nú bara bíður maður eftir tilkynningu um 75% tekjuskatt. Hef mig ekki í að skrifa um farsann sem ástandið í þjóðmálunum hérna er þessa dagana. Kannski síðar.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s