Arsenal tap

Óstöðvandi? Held það bara.

Ætla aðeins að létta á mér varðandi það sem ég tel að hafi farið úrskeiðis hjá mínum mönnum sl. laugardag. Fyrir það fyrsta held ég að leikmenn hafi dottið í sama pakka og undirritaður í aðdraganda leiksins og orðið uppvísir að vanmati. Kannski of mikið að tala um vanmat en ég held að yfirlýsingar ákveðinna leikmanna, sem einnig létu gamminn geysa fyrir Liverpool tapleikinn, hafi haft neikvæð áhrif. Engu að síður verður að viðurkennast að maður hafði ekki mikla trú á Arsenal liði sem spilaði án Adebayor og Persie og með fjölda annarra tæpa.

Helstu sökina tel ég þó liggja hjá Ferguson sem tók enn og aftur á þessu tímabili slæmar ákvarðanir varðandi liðsval. Ferguson er auðvitað búinn að afreka það mikið á sínum ferli og búinn að sanna að „hann veit oftast best“ það oft að réttast væri að láta þar við sitja. Hins vegar finnst mér ástandið óvenju slæmt þessa dagana. Vandamálin eru nokkur:

Vandamál nr. 1 – Berbatov

Ég skal fyrstur standa upp og klappa ef hann verður valinn leikmaður ársins. Ég vil líka árétta að mér finnst hann frábær leikmaður og vildi ólmur fá hann í okkar raðir, hef m.a.s. pottþétt minnst á það á síðunni. Hins vegar fannst mér hann allt of dýr og ekki alveg sú týpa sem liðið þurfti að mínu mati. Berbatov er frábær að fá boltann í lappir, halda honum og skapa hluti, það verður ekki af honum tekið. Hins vegar vill það oft bitna á því að hann er víðsfjarri markinu þegar boltinn berst inn í boxið sem hefur orðið til þess að ég held að hann hafi einungis skorað eitt mark í deildinni. Það er klárt vandamál því ekki verður alltaf hægt að treysta á að jafn mikill fjöldi marka komi af miðjunni eins og á síðasta ári þegar Ronaldo var heitari en meðal hver í Haukadal. Mér fannst þessi tilhneiging Berbatov til að detta niður á völlinn vera sérlega áberandi á móti Arsenal og koma niður á okkar leik. Ég held þó enn í vonina um að þarna sé kominn næsti Cantona.

Vandamál nr. 2 – Rooney vs. Tevez

Þetta vandamál held ég að liggi alfarið hjá Alex Ferguson. Í þessum tveim mönnum hefur hann tvo af bestu leikmönnum ensku deildarinnar og leikmenn sem myndu alltaf byrja í flestum liðum í heiminum í dag. Hins vegar hefur Ferguson af einhverri ástæðu bitið það í sig að þeir geti ekki verið á vellinum á sama tíma. Hvort hann óttast annað Falklandseyjastríð veit ég ekki, en þetta hefur skelfileg áhrif á liðið. Tevez var sjóðheitur í byrjun en Ferguson tókst að kæla hann rækilega niður með því að smella honum á bekkinn þegar Berbatov mætti. Þá virtist Rooney sem betur fer taka við og gat ekki hætt að skora… fyrr en Ferguson ákvað að fara að hvíla hann með reglulegu millibili. Sjálfur tel ég vel mögulegt að hafa alla þrjá inn á vellinum á sama tíma, enda hefur Tevez oft spilað vinstra megin með miklum ágætum, t.a.m. hjá West Ham á sínum tíma og í 4-3-3 hjá United. En með því að halda þeim í óvissu um þeirra stöðu er Ferguson að sjá til þess að Rooney smelli boltanum upp í stúku í hverju dauðafærinu og Tevez gleymi snuðinu fyrir hvern einasta leik.

Vandamál nr. 3 – Ellismellir

Giggs, G.Neville og Edvin Van Der Sar eru kempur. Hinir tveir fyrrnefndu hafa fært óteljandi fjölda sigra í hús síðustu næstum 2 áratugina og EVDS hefur staðið sig eins og hetja síðan hann mætti á Trafford. Hins vegar kemur að því hjá hverjum leikmanni að hann verður OF gamall til að spila á ákveðnu stigi. Ferguson virðist hafa áttað sig á þessu með Giggs og nýtir hann nokkuð rétt sem varaskeifu sem getur dottið inn á völlinn þegar það vantar reynslu til að róa leiki eða jafnvel mann til að minna menn á afhverju United er stærsta lið í heimi og getur ekki sætt sig við tap fyrir t.d. skoskum liðum :). Hins vegar virðist hann eiga erfiðara með að átta sig á stöðu EVDS og G.Neville sem virðast enn teljast til fyrstu 11 hjá honum. Ég vona að tapið um helgina hafi verið „turning point“ hvað þetta varðar og nú verði hvor um sig færður aftar í goggunarröðina. Neville spilaði sig eftirminnilega út úr byrjunarliðinu með þunglamalegri frammistöðu og EVDS hefur einfaldlega ekki verið að koma með neitt aukalega inn í teiginn í síðustu leikjum. Það er áhyggjuefni.

Vandamál nr. 4 – Miðjan

Owen Hargreaves er meiddasti maður í heimi. Búa þyrfti til nýjan skala upp í 1000 til að réttlæta töluna hans í „prone to injury“ í Championship Manager. Michael Carrick er líklega búinn að spila með of mörgum liðum á of stuttum tíma til að geta alltaf munað hver er í hans liði, hann hittir of oft á mótherja. Svo virðist hinn portúgalski Nani hafa rennt of hýru auga til Frú Ferguson eða jafnvel dóttur karlsins því hann nær einhvern veginn ekki að komast í náðina hjá kallinum og verður á einhvern ótrúlegan hátt ekki einu sinni fyrir valinu þegar öll sund eru lokuð eins og um helgina. Það er klárlega vandamál þegar Darren Alexsson er orðinn traustasti miðjumaður liðsins.

Auðvitað finnur Ferguson lausnina á þessu öllu og tryggir a.m.k. 2 titla í vor, jafnvel 3. En ef hann les síðuna og skilur íslensku, þá ættu fyrstu 11 að líta svona út:

Foster, Rafael, Vidic, Rio, Evra, Ronaldo, Anderson, Hargreaves (þá sjaldan hann er fit, en annars Scholes og þá Carrick), Tevez, Rooney, Berbatov.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s