Svartnættið

Það er bara svona ljómandi bjart yfir landinu þessa dagana. Maður horfir á fjárfestingar sínar í sjóðum bankanna hverfa eins og dögg fyrir sólu og horfir forviða á fréttatímana sem margir hverjir virka óraunverulegir þessa dagana og minna frekar á einhverja dramatíska Hollywood mynd. Maður gerir sér grein fyrir því að margir standa mun verr en litla fjölskyldan í Hvarfinu, en áttar sig um leið á því að enn getur ástandið versnað til mikilla muna hjá okkur eins og öðrum. Við þökkum fyrir það í dag að eiga báða okkar bíla og vera laus við yfirdrátt og greiðsludreifingu og erum því bara nokkuð brött á meðan við höldum vinnu. Verði breyting þar á verður auðvitað bara að taka á því, en eins og er tel ég útlitið ekki svo svart. Alls ekki.

Sá Davíð í Kastljósinu áðan og þó ég geti á engan hátt kvittað undir sakleysi hans í því sem skapað hefur þetta ástand hér á fróni þá kinkaði ég kolli með honum. Ég var sáttur við hann. Eflaust verður karpað um manninn frekar en viðtalið fram og til baka næstu daga, en flestir hljóta að hafa getað glott að nokkrum þeim setningum sem hann lét frá sér. Það verður ekki af DO tekið að maðurinn kemur einstaklega vel fyrir sig orði og virkar ávallt verulega sannfærandi í því sem hann segir. Í því kristallast reyndar líka efasemdir mínar varðandi hvítþvottinn hans. Ef hann var með þetta svona á hreinu og kom fram fyrir ríkisstjórnina og sína samstarfsmenn með þessar ábendingar þá hefði ég viljað sjá gripið í taumana fyrr, trúi ekki öðru en hann hafi getað sannfært liðið. Hefði líkað vilja heyra frekar spurt út í þær aðgerðir sem Seðlabankinn hefur gripið til síðustu misseri (Davíð ræddi um bankastuðning sem ég hef ekki heyrt um fyrr) og eins þær aðgerðir sem ekki hefur verið gripið til (lántökur, vaxtalækkun osfrv.). Heilt yfir var ég samt sáttur við kallinn og vona að markaðurinn verði jafn sannfærður um hið ágæta ástand sem hann lýsti og hinn trúgjarni ég. 

Ljóst er að enginn gat séð fyrir þurrkinn á lánamörkuðum heimsins en öllum er ljóst að „útrásarsérfræðingarnir“ fóru of geyst. Samúð mín því einhvern veginn fjarri þeim. Sorglegra er að heyra um smærri dæmi fólks sem virðist hafa tekið misvitrar ákvarðanir í lánamálum, jafnvel upp á síðkastið. Bílalán sem rokið hafa upp úr öllu valdi, hjá fólki sem virðist hafa spennt greiðslubyrðina í botn hjá sér. Maður vonar að hægt verði að koma böndum á gengið þ.a. við förum ekki að sjá fjöldagjaldþrot hjá heimilum á næstu vikum.

Annars er ég bara bjartur. Er það ekki eina vitið?

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s