Manchester ferð

Það eru komnar myndir á myndasíðuna sem tengill er í hér að ofan. Meðal annars eru þar myndir frá Manchester ferð okkar feðga sem var í alla staði vel heppnuð. Við flugum út síðla föstudags og gekk ferðin vel og greiðlega, allt frá skilvirkri innritun Flugleiðafólks í Keflavík til góðrar móttöku starfsfólks Worsley Park hótelsins í Manchester. Það verður ekki af þessu hóteli tekið að það er hverrar sinnar stjörnu virði, þjónustan er fyrsta flokks og allur aðbúnaður hinn glæsilegasti. Það eina sem skyggði á gleði okkar feðga, hvað hótelið varðaði, var sú staðreynd að við þurftum að sætta okkur við reykherbergi til að fá sitthvort rúmið. Eftir á að hyggja var það hins vegar rétt ákvörðun því hætt er við því að pabbi hefði ekki sofið eins og kornabarn þessar 3 nætur ef ég hefði legið í sama rúmi, en ég er enn að velta því fyrir mér hvernig hægt er að rotast svona gjörsamlega löngu áður en seinni fréttir byrja á helstu sjónvarpsstöðvum.

Sem fyrr segir gekk ferðaáætlunin algjörlega upp og var ekki dauður tími frá því við mættum galvaskir í mallið að morgni laugardags með sterka krónu á bakinu og þar til við stigum upp í vélina heim á leið á mánudegi. Að lokinni snarpri laugardagsverslun var haldið á Old Trafford þar sem við fengum að kynnast góðri og mikilli stemningu í kringum leiki þessa stærsta félagsliðs í heimi. Heitur Manchester maður getur samt viðurkennt að „business elementið“ hefur náð algjörri yfirhönd hvað varðar alla stemningu í kringum leikina og fannst mér kannski helst vanta upp á bresku stemninguna sem týnist svolítið í túrismanum á Trafford. En gæsahúðin mætti til leiks þegar leikmenn gengu inn á völlinn og fín spilamennska minna manna fyrir framan pakkaðan völlinn gladdi augað. Við feðgar tókum svo þá djörfu ákvörðun að loknum leik að ganga áleiðis að hótelinu, nokkuð sem ég mæli ekki með fyrir þá sem ætla sér að taka Manchester ferð á Worsley Park. Við hins vegar duttum í lukkupottinn þegar fæturnir voru að gefa sig í einhverju vafasömu bresku hverfi þegar við gengum fram á líklega eina leigubílinn í 25 km radíus. Sá skilaði okkur á hótelið en þangað hefðum við ekki mátt vera mínútu seinni því þá hefðum við misst af Manchester City liðinu sem spókaði sig um í móttökunni þann daginn. Þeir gistu á Worsley fyrir sunnudagsleik sinn á móti Wigan og þótti undirrituðum sérlega gaman að taka stöðuna á þessum stjörnum. Hefði hugsanlega viljað halda „coolinu“ aðeins betur þegar ég hitti Robinho, en ég datt aðeins í 11 ára Britney Spears aðdáanda gírinn þegar ég mætti kappanum. Hann lét það þó ekkert á sig fá og stillti sér glaður upp fyrir myndavélina ásamt Jo félaga sínum. Fínn gaur hann Robbi.

Sunnudag á mánudag lékum við feðgarnir síðan golf á velli hótelsins sem er með þeim glæsilegri á Bretlandi að því mér er sagt og vettvangur Evrópumótaraðarinnar síðastliðin ár. Það var líka ekkert yfir þessum velli að kvarta, annað en það að hann var helst til of erfiður fyrir lítið æfðan háforgjafarmann eins og undirritaðan. Pabbi hins vegar lék eins og engill og raðaði niður pörum eins og enginn væri morgundagurinn.

Mæli því hiklaust með Worsley, að sjálfssögðu með ferð á Old Trafford og bara almennt með heimsókn til Manchester… þegar pundið lækkar.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s