Rush hour

Þá er komin ró í Hvarfið þetta kvöldið. Þriðjudags- og fimmtudagskvöld eru þó nokkuð fjörugri heldur en flest önnur kvöld hjá okkur enda dagskráin stíf. Á eftirmiðdögum þessa daga fara Þórdís Katla og Tinna í Garðabæinn þar sem ÞK iðkar og Tinna þjálfar fimleika hjá Stjörnunni. Þetta virðist reyna talsvert á Þórdísi Kötlu, sem eðlilega er þreytt að loknum leikskólanum og er því oftast búin á því þegar hún kemur heim á kvöldin. Sjálfur hef ég það hlutverk að sjá um Signýju Heklu og matarmálin en hef hentuglega komið því fyrir að við erum með fast matarboð í Álfaheiði á fimmtudagskvöldum.

Tinna hefur annars verið að leysa af á leikskólanum tvo daga í viku, þar sem óskað var eftir liðsinni foreldra til að hægt væri að halda skólanum opnum. Hún tók að sér að mæta á mánudags- og miðvikudagsmorgnum og fékk Kollu ömmu til að passa upp á Signýju Heklu á meðan. Nú er komið smá hlé í þetta hjá henni en aldrei að vita nema framhald verði á leikskólastarfsferlinum síðar, enda telur hún þetta hið skemmtilegasta starf.

Signý Hekla er öll hin sprækasta. Farin að babla hitt og þetta þó svo orðin séu kannski ekki öllum skiljanleg ennþá. Mamma og pabbi þó komin að mestu á hreint, auk þess sem hún heilsar nú með skýru „hæ“ við hvert tækifæri. Ákall á mat er líka nokkuð skýrt „mammi“ og svo eru þarna sem fyrr segir full af orðum og orðasamböndum sem okkur gengur ekki nógu vel að ráða í. SH hefur verið í svefnaðlögun hjá undirrituðum síðustu vikur og gengið vonum framar. Hún var orðin helst til viljug að fá mömmu sína á kvöldin og nóttunni og því þurftum við að taka okkur á og setja stífari reglur um svefninn. Nú legg ég hana í rúmið og er hún alla jafna sofnuð 1-2 mínútum síðar við undirleik spiladósarinnar sinnar. Þetta hefur líka þýtt að hún sefur nánast alla nóttina og rumskar í mesta lagi 1-2 þessa dagana. Við skráðum hana í „barnapúl“ einu sinni í viku í morgun og verður hún með mömmu sinni í prógrammi á mánudögum næstu morgna. Hún er enda öll að styrkjast þessar síðustu vikur og farin að standa heilmikið sjálf, með því að styðja sig við, en eitthvað teljum við þó í að fyrsta skrefið verði tekið. Nú er SH líka að glíma við jaxlatöku og eru ummerkin í munninum á henni ein þau rosalegustu sem undirritaður hefur orðið vitni að, helfjólublár gómur.

Þórdís Katla byrjaði í haust á eldri deildinni á Hvarfi og unir sér vel enda heppin með kennara. Nýr leikskólastjóri tók við sl. vor og nú er allt annar bragur á starfinu í skólanum og framtíðin björt m.v. það sem fram kom á foreldrafundi í gær. Meðal annars á að stofna kór og var ÞK heldur betur spennt þegar hún heyrði af því, enda mikill söngfugl eins og amma hennar. Ég hafði orð á því í dag að mér þætti svolítið merkilegt að hugsa til þess að ÞK ætti 2 heila vetur eftir á leikskólanum enda að mörgu leyti á pari við það sem ég hef kynnst af krökkum sem eru að hefja grunnskólanám. Kenndi jú nokkra tíma í fyrsta bekk hér um árið. Ég skellti t.a.m. upp úr í vinnunni þegar hún stalst á MSN um daginn og sendi mér eftirfarandi skilaboð alveg óstudd:

„Þórdís Katla
TinaDög
Þórðardir“

Mér fannst þetta nokkuð vel af verki staðið hjá dömunni enda er maður jú löngu búinn að komast upp á lag með pabbamontið sem ég hló gjarnan að þegar ég var að þjálfa í þá gömlu.

Jæja, læt þetta duga í bili. Hendum vafalítið myndum inn á netið fljótlega.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s