Bólusótt á útleið

Það virðist vera sem bólusóttin hennar Þórdísar Kötlu sé á undanhaldi. Ekki grátum við það. Katlan hefur staðið sig eins og hetja og tekið þessu hreint ótrúlega vel. Þrátt fyrir að mega vart snerta móður sína og yngri systur, "þurfa" að kúra í fangi föður síns á nóttunni og leita allrar huggunar á þeim bænum er hún ótrúlega brött. Undirritaður er í sjöunda himni hvað þetta varðar því það er hreint ekki leiðinlegt að finna hversu mikil pabbastelpa Þórdís Katla er orðin og það hefur ekkert nema aukist í þessum veikindum. Hins vegar þykir okkur Tinnu afskaplega erfitt að horfa upp á hana engjast yfir kláðanum sem fylgir þessu. En sem fyrr segir er vonandi fararsnið á bólunum.

Annars er það af Þórdísi Kötlu að frétta að hún hefur nú náð merkilegum tökum á lestri og les nú flest orð af sjálfsdáðum. Þetta er ekkert sem hefur verið haldið að henni að einhverju ráði en hún hefur alltaf verið frekar spennt yfir stöfum og orðum. Um daginn las hún heila blaðsíðu í bókinni um Andra og svo les hún auglýsingaskilti og vörumerkingar af miklum móð.

Signý Hekla hefur líka sýnt miklar framfarir á sínu sviði og er nú orðinn heldur betur meðvituð um sitt nánasta umhverfi. Þess er líklega stutt að bíða að hún verði farin að stjórna litla heimilinu því það er þegar ljóst að þetta er ákveðin ung dama. Systurnar hafa báðar staðið sig vel í svefnaðlögun upp á síðkastið. Þórdís Katla virðist vera að ná tökum á því að sofna ein og Signý Hekla er alltaf að verða duglegri að sofna. Hún tekur langa og góða dúra í vagninum á daginn og sofnar svo nokkuð róleg á kvöldin, að vísu oftast í faðmi mömmu sinnar. Pabbinn hefur legið undir ámælum fyrir dapurt framlag á þeim bænum og líklega er það næsti áfangi að ná tökum á því að koma dömunni í svefn…

Annars var nokkuð stór ákvörðun tekin hjá fjölskyldunni sl. föstudag þegar við ákváðum að leita tilboða í þrif hér í Hvarfinu. Úthýsing á þrifum er eitthvað sem margir vina okkar tóku upp fyrir þó nokkru síðan og verður að viðurkennast að mér hefur fundist það frekar óþarft til þessa. Hins vegar gafst ég upp sl. föstudag þegar ég kom heim og sá fyrir enn einn þrifdaginn þá helgina. Því voru lögð drög að úthýsingu á þessum verkþætti heimilisins og verður lesendum síðunnar að sjálfsögðu leyft að fylgjast með framvindunni. Helgin fór engu að síður að mestu leyti í þrif þar sem við tókum lagerinn hjá Toys´R´Us (herbergi ÞK) í gegn. Undirritaður eyddi sunnudeginum að miklu leyti í það að raða saman nánast hverri einustu leikfangalínu sem framleidd hefur verið. Nú er hér kassi með Pony, annar með Playmo, sá þriðji með Barbie osfrv… Mér var hreint ekki hlátur í huga þegar Kolla amma mætti mitt í átakið mitt með enn einn bangsann í safnið til viðbótar við Pony hestana þrjá sem mamma og Hrafnhildur höfðu fært dömunni daginn áður 🙂

En í kjölfar vangavelta um þrif fór ég að velta því fyrir mér hverju ég væri tilbúinn að úthýsa næst og gat svosem ekki séð margt fyrir mér. Býst þó við að ef mér byðist góður aðili til að sjá um innkaupin í Bónus fyrir sanngjarnt verð þá myndi ég slá til. Er einhver til í það?

Guðmundur G. mættur aftur og ég er nokkuð sáttur. Kallinn hefur oft náð góðum árangri og er íslenskur sem mér finnst skipta máli, sbr. fyrri færslu. Nú er bara að vona að hann kalli eftir aðstoð frá Bombunni en það er teymi sem skilaði Íslandsmeistaratitli þegar þeir komu síðast saman. Það væri mikil blessun fyrir Handknattleikssambandið. Annars virðist sambandið á miklum villigötum. Þessi farsi í kringum ráðningu þjálfarans var ekki til að auka trú manns á því starfi sem unnið er hjá HSÍ.

Agalegt að sjá þetta brot á Eduardo um helgina. Vissulega eykur þetta á líkurnar á því að titillinn haldist í heimahúsum þó ég hefði viljað sjá Arsenal brotna (misstíga sig) af annarri ástæðu heldur en þessari um helgina. Leiðinda tvíræðni í setningunni hér á undan… En mínir menn líta vel út og ljóst að ef Rooney heldur sér heilum gæti maímánuður orðið einn sá besti síðan ´99. Ég held í þrennuvonina.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s