Hálfur maður…

Þá er ég u.þ.b. hálfnaður í hálfa fæðingarorlofinu mínu. Mæli eiginlega ekki með þessari leið að vinna hálfan daginn í svona stuttan tíma. Það er eiginlega ómögulegt í framkvæmd þar sem verkefnin haldast nokkurn veginn óbreytt, en verða nú einungis að vinnast á helmingi skemmri tíma. Það veit ekki á gott. Ég gleðst þó yfir því að ég hef náð að vera miklu meira heima núna heldur en þegar Þórdís Katla fæddist en það skýrist líka mikið til af því að ég er ekki þrjá tíma niður á Hlíðarenda dag hvern eins og í það skiptið. Mér finnst þó gagnvart vinnunni að það sé mikilvægast að drífa sig út þegar vinnutímanum á að vera lokið þó það sé oft frekar erfitt með mörg mál opin. Ég hef frekar reynt að taka þá smá tíma um kvöldið til að ganga frá málum þó það sé auðvitað ekki til eftirbreytni… Vann þó allan daginn í dag og ætla í staðinn að reyna að vera fjarri vinnu á föstudaginn sem er fínt plan líka.

Það er líka nóg að gera nú þegar desembermánuður er handan við hornið. Jólagjafainnkaup eru ekki komin af stað en það er hætt við því að ég þurfi að taka drjúgan þátt í þeim þetta árið. Síðan erum við búin að ákveða að skíra 22. desember og verður nafn dömunnar opinberað við sama tækifæri. Nú liggjum við yfir mögulegum nöfnum og er staðan eilítið öðruvísi en þegar Þórdís Katla fæddist. Við glímum nú við það vandamál að geta ekki valið á milli nokkurra nafna sem við erum sátt við. Þórdís Katla var hins vega eina nafnið sem við gátum sæst á síðast þ.a. þetta er talsvert öðruvísi í þetta skiptið.

Við höfum líka ákveðið að bjóða fleirum til skírnarinnar núna heldur en síðast. Þá vorum við með veisluna í heimahúsi sem þýddi að einungis nánustu fjölskyldumeðlimum var boðið. Nú hins vegar ætlum við að stækka hópinn og fengum því safnaðarheimili Fríkirkjunnar að láni og ætlum að vera með kaffi og kökur þar eftir athöfnina. Daman verður sem sagt skírð í Fríkirkjunni hjá sr. Hirti Magna rétt fyrir jólin. Enn er því mögulegt að fjölga í nafnatillögupottinum…

Annars hefur lífið bara gengið sinn vanagang í Hvarfinu. Við Þórdís Katla höfum verið dugleg að stunda íþróttirnar hennar og mætum samviskusamlega í hverri viku bæði í fimleika og á sundnámskeið á milli þess sem hún sinnir leikskólanum og jólaundirbúningi. Um síðustu helgi fór hún í jólaföndur hjá langömmu sinni ásamt frænkum sínum þeim Kötlu og Kareni Ardísi. Hún hefur því nóg fyrir stafni og er sífellt að verða duglegri að hjálpa okkur með litlu systur sína. Það verður þó að segjast að stundum keyrir hjálpsemin úr hófi og tekur það stundum mikið á að sjá til þess að sú eldri kaffæri ekki yngri dömuna í knúsi…

Jæja, læt þetta duga í bili. Skelli kannski myndum inn á barnaland við tækifæri…

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s