Er hann ekki bara geðveikur?

Enn er allt með kyrrum kjörum hér í Hvarfinu og lítur út fyrir að nýjasti meðlimur fjölskyldunnar þurfi gangsetningu til að komast af stað í kapphlaupinu. Hafi ekkert gerst nk. sunnudag verður hann (fjölskyldumeðlimurinn 🙂 ) rekinn út með látum. Við núverandi meðlimir fjölskyldunnar erum þó nokkuð létt bara og þá sér í lagi ég og Þórdís Katla.
Annars er Tinna án alls spaugs ótrúlega hress og ekkert að stressa sig á þessari bið. Það er helst að hún kvarti yfir svefnskorti, enda víst allt annað en einfalt að sofa með 41 vikna gengið barn framan á sér. Þið sem viljið reyna þetta getið fest við ykkur c.a. 4 kg kartöflupoka fyrir næstu nótt. Endilega látið mig vita hvernig það kemur út, þar sem ég býst ekki við því að prófa sjálfur 🙂

Fyrri riðill meistaradeildarinnar hálfnaður og allt útlit fyrir að mínir menn komist nokkuð auðveldlega á næsta stig keppninnar. Erum að spila feiknavel um þessar mundir og gaman að sjá hversu vel þetta rúllar þrátt fyrir að við séum með her manna á hinum alræmda meiðslalista. Scholes, Evra, Hargreaves, Carrick og Neville allir frá í dag.
Verð þó að viðurkenna að um þessar mundir er Arsenal líklega að spila betri bolta. Þeir voru fáránlega góðir í kvöld. Merkilegt með þetta hjá Wenger, hvernig liðið hans nær upp einhverjum yfirnáttúrulegum leikskilning að manni finnst og hvernig hann dregur upp einhverja ofur-hæfileikaríka kjúklinga á mánaðarfresti.  Sóknarleikurinn hjá þeim virkar oft á mann eins og vel æfður, kerfisbundinn handknattleikur. Gamla stimplunin í bland við óútreiknanlegar "no look" sendingar. Og hvað er síðan með þennan Fabregas? Hvernig verður hann 28 ára? Kannski hættur? Nei, varla 🙂 Annars reynir fyrst á þetta unga Arsenal lið í næstu 2 leikjum, þegar þeir mæta Manchester stórveldinu og Liverpool. Það má ekki gleyma því að þeir eru búnir að spila 6 leiki heima og bara 3 úti í deildinni og eiga enn eftir að mæta stórliðunum. En ef þeir klára þetta með 4 stigum eða fleiri þá fer ég að hafa áhyggjur.

Vinnan mallar með nokkuð eðlilegu móti, þó það sé nokkuð sérstakt að geta aldrei verið alveg viss með morgundaginn. Ætla að demba mér í 2 vikna orlof strax að fæðingu lokinni og taka síðan í framhaldinu hálfs dags vinnu í einhvern tíma.

Verð að minnast á fínan lið sem ég rekst stundum á í morgunútvarpinu á Bylgjunni, sem er oftast í gangi á leið minni til vinnu á morgnana. Vikulega fá þau til sín í heimsókn Magnús Skarphéðinsson og einhvern sem ég held að heiti Birgir til að fjalla um það sem líklega er réttast að kalla yfirnáttúrulega hluti. Magnús er harður á þeirri línu að allt í kringum okkur sveimi afturgöngur, geimverur og álfar á meðan Birgir er raunsæismaðurinn á hinum endanum sem er klár á því að allt eigi sér vísindalegar skýringar. Hef gaman af því að hlusta á þá, enda hlutir sem maður veltir gjarnan fyrir sér. Er líf eftir dauðann? Finnst líf á öðrum hnöttum? Hver skapaði heiminn? osfrv. Í morgun var frekar fyndið atriði í þessum þætti. Kem með stuttu útgáfu sögunnar. Það hringdi móðir inn og vildi leita ráða varðandi það að barnið hennar sæi í kringum sig hina og þessa sem enginn annar sæi. Gamall maður í skólanum um daginn (með tilheyrandi stríðni bekkjarfélaganna sem ekki sáu neitt), amma sem barnið hafði aldrei hitt osfrv. Magnús byrjaði á því að sýna henni fullan skilning á málinu og fór rækilega yfir nauðsyn þess að sýna barninu fram á að þetta væri hinn eðlilegasti hlutur og ekkert til að hræðast. Birgir benti móðurinni á að heimsækja geðlækni þar sem allt benti til þess að barnið ætti annaðhvort við geðraskanir að stríða eða hefði að öðrum kosti of frjótt ímyndunarafl. Ég hló svo mikið að þessu snubbótta svari hans að ég þurfti næstum að leggja út í kant 🙂 Óháð því hverju fólk trúir í þessum efnum þá er varla annað hægt en að sjá spaugilegu hliðina á því þegar hann fullyrti að hún væri með geðveikt barn í höndunum.

Tinna hefur sett sér það markmið að skila myndum inn á barnalandssíðuna á morgun. Sjáum til.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s