Bið, endalaus bið… sem bara styttist ekki neitt

Var það ekki einhvern veginn þannig sem hún Svala Björgvinsdóttir söng í den? Held það. Þannig er a.m.k. stemningin hérna í Hvarfinu þessa dagana, endalaus bið eftir nýjasta fjölskyldumeðliminum. Nú hlýtur þetta að fara að styttast. Það held ég. Annars væri gaman að halda utan um tölfræði tengda því hversu oft á dag við fáum spurninguna "Er ekkert að gerast ennþá??" 🙂 Þegar maður er orðinn hálf þreyttur á viðvarandi ástandi, þá er fátt eins "frústrerandi" eins og að láta minna sig á það. Man eftir því að hafa verið í atvinnuleit og fengið daglega spurninguna um hvernig gangi og ég held að þetta sé jafn pirrandi 🙂 En ekkert svona langaraðhendamérfyrirbíl pirrandi. Það er bara fyndið að hugsa til þess hversu ólíklegt það væri að maður myndi spjalla við einhvern um daginn og veginn og gleyma að taka það fram að Tinna væri búin að eiga.

Þess utan er ég bara ótrúlega hress eitthvað þessa stundina. Nýkominn af fundi Foreldrafélags Leikskólans Hvarfs, þar sem ég tók að mér stöðu gjaldkera. Já, ég er stoltur meðlimur í þessu ágæta félagi og mun sitja þar fundi í vetur með hinum 8 meðstjórnendum mínum, sem allir eru af gagnstæðu kyni. Það verður þó að viðurkennast að ég var ekki alveg að finna mig í þessum saumaklúbbsfíling sem sveif yfir vötnum þarna, en er sáttur við þátttökuna. Hugsa að ég láti verulega til mín taka á þessum vettvangi þegar fram líða stundir. Hef samt alltaf verið fylgjandi skilvirkni í fundahaldi en þessi fyrsti fundur minn átti ekkert skylt við hugtakið skilvirkni. Málin voru afgreidd á 10 mínútum og afgangur fundarins fór í spjall um daginn og veginn þar sem heimsins versti "small talker" var hreint ekki á heimavelli. Vona að ég hafi ekki virkað of snubbóttur 🙂

Held að golfsumrinu sé formlega lokið og nú verður beðið eftir Flórídaferðinni með næstu sveiflu. Forgjöfin náði ekki þeim lægðum sem lagt var upp með í sumar en það verður bara vonandi betra næst. Vissulega vonbrigði en ég ber fyrir mig þeirri afsökun að ég náði ekki að spila nægjanlega mikið. Náði t.d. ekki að fara einn hring eftir kennsluna sem við starfsfólk Þekkingar fengum í ágúst. Sjálfur fór ég með viðskiptavinunum líka og var því nánast í einkakennslu stanslaust í 2 vikur, þ.a. ég held að ég eigi inni ákveðna lækkun. Það hlýtur að vera.

Man bara ekkert hvor ég var búinn að greina frá Flórídaplönum fjölskyldunnar hér á blogginu en ég veit með vissu að ég var ekki búinn að smella húsinu hér inn. Við ætlum sem sagt fjölskyldan í Álfkonuhvarfi að halda til Flórída í apríl í tvær vikur og dvelja þar ásamt foreldrum mínum, ömmu, Svövu systur mömmu og Kötlu hennar. Erum búin að leigja þetta hús og munum hafa það alveg svakalega gott. Þannig er það nú bara. Get sjálfur vart beðið að komast til Bandaríkjanna enda fannst mér Denver ferðin í sumar engan veginn svala "heimþránni". Er nú þegar nokkurn veginn búinn að leggja upp skyndibitaplanið. Buffalóvængir og bjór á Applebees gæti orðið daglegur viðburður. Einhver samferðamaður minn talaði um heimaeldaðan mat en ég held að slík vitleysa verði ekki í mínum plönum. When in Rome og allt það…

Annars hefur fátt merkilegt verið að frétta héðan úr Hvarfinu. Þórdís Katla hress og kát og á fullu í fimleikum hjá Gerplu. Æfir stíft einu sinni í viku, sem er einu sinni oftar en meðaltalið mitt síðustu vikur 😦
Mér tókst að slasa mig í boltanum fyrir c.a. 3 vikum og fór svo að asnast allt of fljótt í einhvern utandeildarleik, þar sem mér tókst alveg að fara með fótinn á mér. Gáfulegt. Fregnir af ástandi mínu virðast samt ekki letja þjálfara landsins til að hafa samband við kappann 🙂 Af einhverjum ástæðum hafa nokkur liðanna hér heima trú á því að hægt sé að byggja á maraþontímanum og nýta undirritaðan að einhverju leyti næsta sumar. Það væri lygi að segja að þessi símtöl hreyfðu ekki við mér.

Hef mikið verið að pæla hvort ég ætti að láta til leiðast og draga fram skóna aftur. Löngunin er vissulega til staðar og finnst ég að mörgu leyti ferskari núna heldur en oft áður. Þegar maður hefur setið utan við boltann í smá tíma þá fær maður aðra sýn á hlutina og kæmi afslappaðri til leiks. Fann það með HK í fyrra og það viðhorf styrkti veikustu þætti mína á vellinum. Síðan hefur "hvíldin" gert hnénu gott þ.a. mörg rök hníga að því að maður ætti að taka eitt tímabil í viðbót. Sér í lagi af því þetta er nú með því skemmtilegra sem ég geri. En þegar maður rifjar síðan upp hvernig það er að vera að heima alla daga til klukkan 20 og sinna þannig fjölskylduverkum á takmarkaðan hátt og hitta jafnvel Þórdísi Kötlu ekkert þá virkar ákvörðunin einfaldari. Verð endanlega búinn að loka á þetta fljótlega 🙂

Jæja, nenni ekki að skrifa um SpillInga og gleymsku-Villa hérna. Það er nú meiri farsinn. Myndi líka vilja hripa niður eitthvað um landsliðið en nenni því ekki heldur. Held að við ættum að gefa Eyjólfi frí. Ég var á öðru máli í sumar en þegar maður verður vitni að andlausri frammistöðu eins og á móti Lettum þá finnst manni eins og hann sé búinn með trompin…

Fínt í bili.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s