Á Muse-leið

Þórdís Katla, fótboltastelpaSumarið er komið. Íslenska sumarið með tilheyrandi roki og rigningu, mikið er þetta hressandi. Við skelltum okkur út fjölskyldan í morgun og gerðum  heiðarlega tilraun til að spila fótbolta og róla okkur á leikvellinum við leikskólann. Mikið væri nú gaman ef það væri jafnara hlutfallið á milli blíðviðris og roks og rigningar hérna á fróni. Við lögðum það á okkur að taka myndir af Þórdísi Kötlu í morgun og eru þær þegar komnar inn á síðuna hjá henni ásamt fleiri skemmtilegum myndum úr maímánuði.

Ég er nú orðinn stoltur meðlimur í Golfklúbbi Selfoss (GOS) og mun því fara að færa til bókar (nets) frammistöðuna á golfvellinum. Þetta er sniðugur leikur hjá mér, held ég, þar sem nýliðagjaldið í klúbbinn er ekki hátt og mér leyfist að leika á nokkrum stöðum hér sunnanlands. Býst nú fastlega við því að ná að laga sveifluna aðeins til. En ekki heillar að draga fram settið þegar maður horfir út um gluggann þessa stundina. Er samt að velta því fyrir mér að fara út með hlaupahópi Glitnis síðar í dag enda ekki búinn að standa mig í hlaupunum þessa vikuna.

Fékk annars áhugavert boð frá Jóni Eggerti sem ég ætla að skella mér á: tónleikar með MUSE í London, laugardaginn 16. júní. Fljúgum út á föstudagskvöldi og komum aftur á sunnudegi, þ.a. þetta ætti að geta orðið skemmtilegur skottúr. Viðurkenni að ég er með bölvað samviskubit yfir því að skilja fjölskylduna eftir heima, sér í lagi þar sem nánast öll stórfjölskyldan verður fjarri þessa daga og ég er mikill 17. júní maður. Hef alltaf haft gaman af því að taka rúntinn í bænum á þjóðhátíðardaginn. En MUSE á Wembley með 80.000 öðrum áhorfendum er bara einum of freistandi til að sleppa því.

Landsleikurinn í gær var viss vonbrigði. Það var hins vegar gleðilegt að sjá Valsmennina Matta og Birki stimpla sig inn í sitthvorum hálfleiknum. Finnst menn alveg vera að tapa sér í ruglinu þegar þeir fleygja fram fyrirsögnum eins og Henrý Birgir gerði í Fréttablaði dagsins, þar sem hann krafðist afsagnar Eyjólfs. Ég myndi vilja gefa Eyjólfi tækifæri áfram út þessa keppni og leyfa honum að reyna sig fyrir undankeppni HM. Mér finnst fullt af jákvæðum hlutum sem hægt er að taka út úr þessu hjá okkur og flott að sjá hann gefa mönnum eins og Matta, Birki og fleirum tækifæri. Við ættum að nota leikina sem eftir eru til að búa til reynslu hjá okkar efnilegustu leikmönnum og sjá hverju það skilar fyrir næstu HM undankeppni. Við getum hvort eð er varla orðið mikið óheppnari með riðil og hefðum getað sagt okkur fyrirfram að við ættum litla möguleika á að komast upp með þrjár stórþjóðir með okkur. Þarf ekki annað en að horfa á Dani sem eru í stórkostlegum vandræðum með sín plön. Ef eitthvað á að gagnrýna þá er það samt að mínu mati miðjuuppstillingin. Held að það sé nauðsynlegt að við höfum Eið á miðjunni, þar sem hann er okkar eini maður sem getur fengið hann í lappir í þröngum stöðum og búið eitthvað til. Það var pínlegt að horfa upp á feilsendingarnar á miðjunni í gær.

Læt þetta duga í bili. Smelli lagi með Muse í spilarann hér til hægri til gamans…

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s