Páskarnir

Tíðindalitlum páskum að ljúka og nokkuð ljóst að undirritaður getur ekki borið fyrir sig svefnleysi þegar kemur að því að vakna til vinnu í næstu viku. Hér í Hvarfinu hefur verið mikil afslöppun í gangi yfir hátíðina og hefur bæði svefni og áti verið sinnt samviskusamlega.

Við Guðmundur höfum tekið tvö hlaup saman og býst ég fastlega við því að við drífum okkur út í dag líka og tökum 5-6 kílómetra skokk. Því til viðbótar höfum við verið nokkuð dugleg fjölskyldan að heimsækja Salalaugina og taka léttan sundsprett í bland við ferðir í vatnsrennibrautinni góðu.

Við höfum fengið kærkomna matargesti til okkar öll kvöldin og hefur verið grillað bæði kjöt og lax og bakaðar pizzur a’la Tinna. Jón Eggert heiðraði okkur með nærveru sinni á fimmtudags- og föstudagskvöld og lauk þar með óslitinni sigurgöngu minni í Buzz með tveimur öruggum sigrum bombunnar. Mér tókst þó að hefna eftirminnilega fyrir þau töp með því að vinna sanngjarnan 3-2 sigur á honum í fótboltaleiknum PES sem Jón hefur spilað töluvert meira en ég. Fáránlegt hvað hægt er að gleðjast mikið yfir sigri í tölvuleik, ég er ekki frá því að mig hafi dreymt sigurmarkið um nóttina. En það sýndi sig reyndar í síðari leik okkar félaganna, sem Jón vann 6-1, að ég á enn ýmislegt ólært í þessum fræðum og á hugsanlega bærilegri tölvugerð af hollenskum markmanni sigurinn góða að þakka. Nóg um það.
Vaka eyddi síðan laugardagskvöldinu hjá okkur og hraut í takt við systur sína í kúrisófanum góða. Ljóst að margt er líkt með skyldum.

Páskadagur var síðan undirlagður af undirbúningi fyrir glæsilegt kvöldverðarboð, sem þó ég segi sjálfur frá heppnaðist með miklum ágætum. Þar sem foreldrar okkar Tinnu eru erlendis yfir hátíðina ákváðum við að bjóða til okkar í páskamat ömmum og afa ásamt því sem Vaka mætti hress og kát í fína göngugifsinu sínu. Ég tek megnið af hrósinu fyrir framkvæmdina þó svo ekki sé ætlunin að gera lítið úr þætti hjálparkokksins Tinnu. Í boði var þríréttuð máltíð sem samanstóð af hefðbundnum rækjukokkteil, kalkúni með sveppa- og hnetufyllingu og súkkulaði ostaköku í eftirrétt. Virkilega vel heppnað boð þó ég segi sjálfur frá. Sérstaklega stoltur er ég af bökun ostakökunnar enda held ég að þetta hafi verið frumraun mín í bakstri frá því ég tók með mér fjarkan góða úr heimilisfræði í Breiðholtsskóla um árið. Skil enn ekkert í þeirri ákvörðun kennarans og er viss um að matargestir gærkvöldsins eru mér jafn undrandi. Hugsa að ég setji inn eitthvað af þessum uppskriftum fyrir áhugasama hér á eftir…

Ég kemst síðan ekki hjá því að lokum að barma mér aðeins yfir leik minna manna sl. laugardag.
Að loknum fyrri hálfleik þar sem Kieran Richardson sýndi ógeðfellda frammistöðu, sem hefði varla dugað í utandeildinni í San Marínó, hafði maður á tilfinningunni að þetta yrði einn af þessum dögum þar sem ekkert myndi ganga upp. Það er hreinlega of mikið þegar þrjá byrjunarliðsmenn vantar úr vörninni og tveimur farþegum eins og fyrrnefndum Kieran og Darren Alexsyni er gefið tækifæri. Þá erum við bara ekki nógu góðir til að geta unnið Portsmouth með einhverju hálfkáki og það kom berlega í ljós. Ronaldo var þó traustur að venju, enda löngu búinn að sýna að hann á vel heima í sjöunni frægu. Það er deginum ljósara að ef frammistaðan verður á þennan veg annað kvöld þá getum við kvatt Meistaradeildina þetta árið. Við United menn hins vegar vonum það besta. Vona bara að nú taki Fergie sig til og gefi Kieran til einhvers kvennaliðs í Georgíu, þar á hann heima bölvaður.

Jæja, tími til kominn að taka endasprettinn á þessari páskahátíð. Hlaup, heimsókn og afgangaát á dagskránni. Góðar stundir.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s