Hver ætlar á Helgu Möller tónleikana??

Langt síðan ég hef skilað einhverju inn á þessa síðu mína. Ég er hins vegar langt frá því að vera búinn að gefast upp og hef heldur ekki setið auðum höndum hvað varðar netmál. Kom mér upp þessari ágætu MySpace síðu og þar ætla ég að láta ljós mitt skína um leið og ég blómstra hérna á moggablogginu.

Mér finnst nauðsynlegt að stikla á stóru yfir það sem á hefur gengið hjá bloggritara frá síðasta innliti. Þann 21. mars náði ég að fylla heil 27 ár og var það áfall sem enn situr í mér. Mér nákomnir virtust einnig hafa áhyggjur af aldrinum því á meðal gjafa sem rötuðu inn í Álfkonuhvarf var Playstation tölva frá Tinnu og Þórdísi Kötlu og leikur í tölvuna frá félögunum. Markmiðið vafalítið að halda stráknum ungum í anda. Ég hef svosem ekki verið mjög iðinn við spilun á leikjunum tveimur sem ég er stoltur eigandi af, en þó hafa verið tekin hér 2 "Buzz" kvöld og ætla ég ekki að sleppa því að taka fram að ég er enn ósigraður í þeim ágæta leik. Heimavöllurinn er augljóslega mikilvægur í þessum leik.

Leit inn á Leaves tónleika í Iðnó um daginn og skemmti mér vel. Skil eiginlega ekki að til sé sá sem ekki skemmti sér vel þó ég hafi heyrt orðróm þess efnis að einhverjir tónleikagesta hafi orðið fyrir vonbrigðum. A.m.k. einn. Mér hins vegar fannst þeir ótrúlega þéttir og sérstaklega gaman að heyra hvernig verið er að endurgera lögin af fyrstu plötunni.

Ég hef annars verið að sinna tónlistinni vel enda komst ég í samband við það sem ég í dag kalla vini mína á rússnesku síðunni www.gomusic.ru. Aðgengi mitt að þeirri síðu hefur öðrum hlutum fremur orðið til þess að ég hef náð að taka vel á nýjum og aðeins eldri plötum sem skilað hafa sér á markaðinn upp á síðkastið. Mér líst sérlega vel á nýtt afkvæmi Kaiser Chiefs, "Yours Truly, Angry Mob". Ég var virkilega hrifinn af fyrri plötunni þeirra og ekki minnkaði aðdáun mín á hljómsveitinni við það að heyra í þeim á "Airwaves" hátíðinni sl. haust. Nýja platan virkar ótrúlega vel á mig strax eftir litla hlustun og mæli ég hiklaust með henni. Ég er ekki eins hrifinn af nýja disknum frá Damien Rice, 9. Það er eitt og eitt lag sem fær mann til að brosa en eftir nokkrar hlustanir er hann engan veginn að koma tánum þar sem hælarnir á fyrri disknum hafa tekið sér stöðu. Aðrir diskar sem eru í skoðun þessa stundina eru diskarnir með Fall Out Boy, hinum hressa Mika og nýjasti diskurinn hans Justin Timberlake sem allt virðast góðar viðbætur í safn undirritaðs. Að lokum verð ég að mæla með nýja disknum frá Arcade Fire. Diskurinn sá var nokkra stund að vinna sig í gegnum meltingarveginn en hefur nú tekið sér fasta stöðu í "Most Recently Played" listanum á iPodinum góða. Virkilega flottur diskur og sannarlega súrt fyrir Stefán og Guðbjörgu að hafa misst af þessu mæta bandi frá Montreal.

Tók annars léttan túr til Akureyrar með vinnunni um daginn. Lagt var af stað með rútu snemma föstudags og ekið beinustu leið norður. Tilgangurinn að hrista saman hópana að norðan að sunnan undir yfirskini "Þekkingarleikana 2007" þar sem hæst átti að bera knattspyrnuleik á milli skrifstofanna tveggja. Leikurinn náði aldrei því risi sem til var ætlast þar sem norðanmenn tóku okkur piltana að sunnan í bakaríið. Tvisvar. Það skal hér viðurkennt að umræðan á skrifstofunni í Kópavogi hafði meira snúist um fagnaðarlætin að leik loknum frekar en hvernig við færum að því að skapa tilefni til fögnuðar. Það kom í bakið á okkur. Að vísu verða hér tilteknar tvær ástæður sem ég er fullviss um að séu þess verðugar að útskýra þetta óvænta tap:
Fyrir það fyrsta höfðum við haft mikið fyrir því að kaupa Jónsa (Jón Þorgrím Stefánsson) í tíma fyrir þennan mikilvæga leik, til þess eins að sjá nafn hans á meiðslalistanum á leikdegi. Þessu til viðbótar var síðan séð til þess af norðanmönnum að ársuppskera "Stella Artoise" verksmiðjunnar fylgdi okkur í rútulíkinu norður. Þegar ég sá birgðirnar af bjórnum í rútunni ákvað ég að skilja mína drykki eftir heima. Það segir því sitt að þegar við renndum inn að Esso skálanum á Blönduósi var ekki dropi eftir af bjórnum góða. Og þrátt fyrir góðan vilja, ágætan knattspyrnugrunn og fínt veður var ástand okkar ekki á þann veg að við gætum skákað sprækum og allsgáðum norðanmönnum.

Við sunnanmenn vorum hins vegar eðli málsins samkvæmt að mínu mati mun þéttari í göngugötunni um nóttina og voru skemmtistaðirnir tveir fyrir norðan engan veginn í takt við okkar fas. Reyndar held ég að næturlíf norðanmanna fengi seint viðurkenningu sem sæmilegt þriðjudagskvöld hér í henni Reykjavík. Máli mínu til stuðnings bendi ég á að þegar ég, eftir þó nokkrar ábendingar heimamanna, gerði mér ferð inn á "aðal" skemmtistaðinn var mér boðið að borga 1000 krónur til að hlusta á Helgu Möller syngja við undirspil á skemmtara. Undir ómaði það sem ég áður taldi vera jólalagið "Ég kemst í hátíðarskap" en verður nú líklegast að teljast hátíðarlag. Þrátt fyrir nokkuð stífa 12 tíma smökkun hina ýmsustu orkudrykkja hafði ég næga reisn til að snúa baki í miðasöluna og ganga út með orðunum "fyrr læt ég gelda mig en að borga 1000 krónur til að hlusta á Helgu Möller". Þannig var nú það.

Ekki kemst ég hjá því að minnast á mína menn sem um helgina spiluðu líklega einn besta hálfleik síðan við slátruðum Tottenham um árið. Það virðist fátt geta komið í veg fyrir það að við skilum titli í hús þetta árið þó það sé vissulega áhyggjuefni að heyra af ástandi Nemanja Vidic. Það væri samt fáránlegt að vera ekki bjartsýnn. Trú mín á United virðist m.a.s. vera það sterk að ég er farin að yfirfæra hana á önnur lið. Þannig væri ég alveg í augnablikinu til að halda því fram að West Ham nái að bjarga sér. Tevez sér um sína.

Mæli að lokum með greinunum hér til hægri. Allt meistaraverk.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s