Sorglegur X-Factor

Ég er ennþá að berjast við kjánahrollinn sem læddist að mér þegar úrslit voru kunngjörð í X-Factor þætti kvöldsins. Einar Bárðarsson snökti í takt við kynninn Höllu, sem grét eins og Danir hefðu hertekið okkur aftur. Merkilegt og sérlega bandarískt allt í senn. Þátturinn annars hin besta skemmtun og ég get svosem skilið undirrót þessa harmleiks sem þarna var settur á svið. Pilturinn Alan, sem rekinn var úr Smáralindinni, hefði líklega átt að fá að versla einu sinni enn í Top Shop á kostnað Ingu gömlu. En það þýðir líklega ekki að deila við dómarana í þessu sporti frekar en öðrum.

Stórleikur á morgun í Liverpool. Ég fullyrði að ef við förum með sigur af hólmi þá sé titillinn okkar. Þessari fullyrðingu til viðbótar ætla ég að henda inn úrslitunum fyrir áhugasama Lengjuspilara sem vilja "tippa í beinni". Í óvenju skemmtilegum leik mun stórveldið hafa 3-2 sigur. Rio, Larsson og Scholes sjá til þess að Gerrard og Bellamy fara svekktir heim með sitthvort markið sitt í farteskinu. Larsson setur winnerinn á 86. og ég sendi Jóni SMS til staðfestingar á því að þarna sé sko ekkert "flopp" á ferðinni, þvert á hans yfirlýsingar. Hver þarf svo stjörnuspá Moggans?

Fullt af dæmigerðum íslenskum hitamálum sem maður ætti að tjá sig um á netinu en ég er með harðsperrur í fingrunum eftir sannkallaðan stórleik í vinnunni í dag og læt það því ógert að mestu. Að mestu. Er nefnilega enn hneykslaður á því að Jennu og hinum vinkonum hennar í dónalegumyndaiðnaðinum skuli ekki hafa verið boðin hótelgisting á Sögu. Treysti því að afi taki þetta upp á næsta fundi með bændunum.
Er líka enn jafn hneykslaður á Steingrími J. sem mér finnst allajafna nokkuð spaugilegur fýr. Netlögregla, kommúnísk kynjajöfnun í stjórnun fyrirtækja og slagorðið frelsum ástina – höfnum klámi eru allt atriði sem hljóta að draga blýantinn að Vinstri-Grænum í vor. Varla. Held að Steingrímur hafi ekki einu sinni verið búinn að hugsa netlögreglupælinguna til hálfs þegar hann missti hana út úr sér. Lögbundin kynjajöfnun finnst mér frábært dæmi um forræðishyggjusýnina sem Steingrímur birti svo rækilega fyrir þjóðinni þegar banna átti bjórinn. Og svo dæmir þetta með klámið sig alveg sjálft. Hef aldrei skilið andúðina á þeim ágæta iðnaði.

Að lokum skemmtilegra mál. "A matter of dance". Ætla að reyna að eyða 5 mínútum í að koma hérna inn myndbandi sem tekið var upp í Hvarfinu í kvöld. Held að þetta sleppi í gegnum netfilterinn hjá VG og hendi mér ekki útaf framtíðargistilistum Radisson manna.
Það er siður hjá okkur Þórdísi Kötlu að taka nokkur spor á stofugólfinu í lok vinnuvikunnar við hressa slagara úr iPodinum góða. Mér finnst það hluti af föðurlegum skyldum mínum að miðla danshæfileikunum til dótturinnar. Í kvöld var gjörningurinn tekinn uppá myndband og verður hreinlega að komast í loftið. Vona að þetta takist hjá mér.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s