Pælingar, spælingar

Mér finnst tíminn alltaf rjúka áfram í janúar og febrúar. Eina stundina er maður að skála fyrir nýja árinu og þá næstu er kominn mars.
Kannski ekki alveg, en mars er rétt handan við hornið og mér finnst jólin nýbúin. Síðasta vika flaug frá mér og sér í lagi helgin sem nú er að renna sitt skeið. Hef eytt mestum tíma helgarinnar í málningar- og hreinsunarvinnu í Stangarholti þar sem Svava, systir mömmu, er að koma sér fyrir í nýrri íbúð. Get ekki sagt að ég hefði viljað leggja slíka vinnu fyrir mig en það er ágætt við og við að hendast í svona íbúðaruppgerð.  Þetta eru a.m.k. góðar æfingabúðir fyrir viljugan heimilisföður með takmarkaða iðnkunnáttu og það er vel. Svo er alltaf gaman að hjálpa öðrum, það er jú svo gefandi að gefa af sér.

Horfði á Eurovisjón í gær og var bara nokkuð sáttur við úrslitin. Get ekki sagt að neitt laganna muni rata inn á iPodinn hjá mér en ég var að minnsta kosti á því að lagið með Eiríki ætti mest erindi í keppnina, sem vafalítið verður á skjánum hjá mér í maí. Það gerir nú oftast vart við sig þjóðarstoltið þegar við Íslendingar látum að okkur kveða á erlendum vettvangi og því er maður alltaf með augað á Euróvisjón. En lögin mættu gjarnan vera betri. Væri til í að fá svona Eurovisjón "all stars" eitthvað árið. Hver þjóð myndi senda sínar kanónur. Írar U2, Bretar Coldplay, Þjóðverjar Rammstein og við Íslendingar Björk. Væri það ekki gaman? Hverja myndu Ungverjar senda?

Klikkaði á konudeginum í dag. Ja, klikkaði og klikkaði ekki. Ég mundi eftir deginum en gerði fátt til að fagna honum, eða til að Tinna gæti fagnað honum. Ég er nefnilega ekkert sérstaklega hrifinn af slíkum dögum. Hef vissulega stundum lagt mig fram í nafni þeirra og mér finnst þeir svosem ágætis leið til að minna menn á að dekra svolítið við makann. En mér finnst líka allt í lagi að slíkt dekur líti dagsins ljós þrem dögum eða vikum síðar. En ég kveikti nú á kertum og eldaði dýrindis máltíð á Valentínusardaginn og sá gjörningur féll í góðan jarðveg. Svo reynir maður að vera hæfur til sambúðar flesta daga ársins og það er afrek útaf fyrir sig 🙂 Skemmtilegar svona sjálfréttlætingar…

RÚV og íþróttir. Oftar en ekki fæ ég þá tilfinningu að íþróttadeild Ríkissjónvarpsins sitji sveitt á sunnudagskvöldum við að klippa niður efni til að koma því fyrir í allt of stutt Helgarsport. Yfirferð þeirra um íþróttirnar er jafnan afar tilgangslaus og mikil vonbrigði fyrir íþróttaunnandann mig heima í stofu. Þannig er hefðbundin umfjöllun um leiki í DHL deildinni á þá leið að sýnd eru 2-3 mörk á meðan þulurinn keppist við að komast yfir 2 markahæstu menn hvors liðs og fjölda varinna skota hjá markverði sigurliðsins. Frábært.

Fyrir mér liggur jafnan ljós fyrir lausn við þeirra vandamálum. Klippa ætti út allar listgreinarnar, s.s hestasýningar, fimleikasýningar og dans, sem eiga fátt eiga skylt við íþróttir eins og handbolta, körfubolta og frjálsar íþróttir. Slíkar glefsur ættu að birtast í þáttum eins og Kastljósi, Út og Suður eða þeim þáttum sem gefa sig út fyrir að sinna ólíkri menningu Skersins okkar. En í ljósi tímaskortsins og þess að deildin þráast við að sameina listgreinar og íþróttir í sama þættinum er það mér algjör ráðgáta hvers vegna þeir eyða drjúgum tíma í símaviðtal við Brynjar Björn Gunnarsson leikmann Reading. Í slíku viðtali í kvöld lýsti Brynjar markinu sínu á móti stórveldinu um helgina og tók sér góða mínútu í það: "Við eigum þarna horn og þeir hlaupa á undan mér Ívar og einhver annar… boltinn kemur fyrir úr horninu (innsk. Sigga: Merkilegt!) …. … og svo berst boltinn til mín og ég skalla að marki….. …. hann fer yfir markmanninn …. "

Þetta hefði svosem verið í lagi ef þeir hefðu ekki haft sýningarréttinn á markinu. En markið var sýnt og þar sem ég geri ekki ráð fyrir miklu áhorfi úr samfélagi blindra á þáttinn sé ég engan tilgang í slíkri tímasóun. Hinar 15 sekúndurnar hjá Brynjari voru ágætar þó þær flokkist seint sem sláandi tíðindi. Hann gerir sem sagt ráð fyrir að Reading muni beita svipaðri taktík í síðari leik liðanna, þ.e. að tjalda í teignum, sparka oftar í Rooney og Ronaldo heldur en boltann og síðast en ekki síst… vona það besta. Merkilegt hvað maður getur verið tapsár.
Og við töpuðum ekki einu sinni. Vona bara að við slátrum þessum Reading liðum í síðari leiknum. Mér er af einhverri óskiljanlegri ástæðu illa við þetta lið. Það gerir engan veginn vart við sig þjóðarstoltið í þessu tilfelli.

Femínistafélagið fer líka óskaplega í taugarnar á mér þessa dagana. Sem er synd, þar sem málstaðurinn er í eðli sínu góður. En alltaf tekst þessu blessaða félagi að fara í taugarnar á mér, ég skil ekki afhverju. Jú, kannski. Viðskiptabönn sem tól í jafnréttisbaráttu. Talsmað.. afsakið talskona félagsins beitir slíkum bönnum án sýnilegs árangurs og segist ekki vilja gefa upp hverjir það eru sem verða af viðskiptum hennar. Hringir samt í blöðin, biður um viðtal og gefur það upp.

Ég sé ekki að þetta virki, það er einhver þversögn í þessu. Í mikilli einföldun er verið að mótmæla misrétti sem segja má að í endingu birtist í lægri launum meirihluta hópsins. Og aðgerðirnar? Hópurinn dregur úr eða stöðvar neyslu á ákveðnum vörum. Má álykta úr því að launin eru af skornum skammti innan hópsins að þetta séu kannski ekki þeir aðilar sem haldi uppi veltu þessara ömurlegu fyrirtækja sem setja sætar brosandi stelpur framan á auglýsingabæklingana sína? Pæling. Er þetta kannski svipað og ef andstæðingar hvalveiða sameinuðust um að mótmæla veiðunum með því að hætta að kaupum á hvalkjöti?

Nú er ég a.m.k. farinn að bulla og ég get mótmælt slíku bulli með því að skrá mig út og fara að sofa. Góða nótt.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s