Þriggja ára dama

Síðustu dagar hafa snúist um prinsessuna á heimilinu, en hún náði þeim áfanga sl. föstudag að fylla þrjú heil ár. Vikan hófst reyndar ekki vel hjá afmælisbarninu því við sófahopp, sem öðlast hefur óhjákvæmilega viðurkenningu sem íþróttagrein í Álfkonuhvarfi, lenti Þórdís Katla í því að kastast á kommóðu í "kúriherberginu". Afraksturinn þokkalegt högg og tilheyrandi grátur. Okkur Tinnu leist ekki á blikuna enda gaus upp á hnakkanum á henni kúla sem líkast til fengi viðurkenningu sem fjall í Danmörku. Eftir að hafa ráðfært okkur við allar mögulegar símavaktir lækna var þó afráðið að kæla þetta bara og fylgjast vel með henni. Þetta gerðist í kringum svefntímann þ.a. það var erfitt að meta hvort um væri að ræða sljóleika vegna þreytu eða höggsins væna. Daginn eftir og raunar hinn næsta líka var leitað á náðir ömmu og afa í Álfaheiði og fékk daman því góða meðferð og afbragðs umönnun í veikindunum. Daginn eftir höggið kíkti Tinna með hana á "slysó" þar sem ÞK fór í sína fyrstu röntgenmyndatöku. Gekk þetta allt saman ljómandi vel og í ljós kom að daman hafði fengið vægan heilahristing en myndi ekki bíða neinn skaða af. Dagarnir tveir í kringum höggið voru samt ekkert sérstakir enda frekar óþægilegt að fylgjast með hnoðranum sínum glíma við fylgifiska svona "near-rothöggs".

Afmælið í gær var ágætlega heppnað og held ég að tekist hafi að lágmarka hávaða og læti m.v. fjölda ungra gesta. Tinna fór á kostum í bakstrinum og tel ég líklegt að settar verði inn myndir af afrekinu á barnalandssíðuna hennar Þórdísar Kötlu. Ágætt fyrir okkur Tinnu (for the sake of remembering) að setja inn smá stöðumat á hæfileikum dömunnar okkar við þriggja ára markið. Við höfum verið allt of léleg við að skrifa í þessar minningarbækur sem við vorum svo kappsfull að útbúa fyrsta árið hennar…

Núna er hún náttúrulega komin með fullar hjólbörur af orðum, lögum og sögum. Fyrir stuttu lærði hún fyrsta enska lagið sitt sem er hið klassíska "If you’re happy and you know it…" og hefur sá flutningur vakið mikla kátínu innan veggja heimilisins. Stafrófið er svakalega spennandi núna enda virðist ÞK ætla að verða mikill bókaormur. Það er nokkuð síðan hún gat bent á alla stafina og nú er hún farin að tengja flesta stafina við nokkur orð og nöfn. En það eru ekki einungis bækur sem heilla því daman sver sig í ættina og sinnir sjónvarpinu af einskærum metnaði. Latibær hefur lengi verið í uppáhaldi ásamt Línu Langsokk og margvíslegum söngvadiskum. Nú nýverið kom svo Ronja Ræningjadóttir sterk inn og eru flest lögin í nýrri uppsetningu á því stykki kominn í "prógrammið" hjá dömunni. Amma Kolla hitti líka svo sannarlega í mark í afmælisgjöfinni í gær þegar hún bauð fjölskyldunni á leikritið góða um næstu helgi. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig orkuboltanum gengur að sitja kyrr heila leiksýningu.

Það er ekki að ástæðulausu sem áhyggjur eru viðraðar af því hvort Katlan haldi ró sinni út heila leiksýningu. Hún er mikill orkubolti enda búin að vera í tveimur íþróttaskólum sl. haust. Hún veit fátt skemmtilegra en að spila fótbolta við pabban þar sem hvort gegnir jafnan ákveðnu hlutverki í leiknum. Þannig "róterar" hún á milli þeirra fjögurra kappa sem unnið hafa sér sess í minninu og skiptumst við þá á að leika þá Eið Smára, Beckham, Ronaldinho og Ronaldo sem auðvitað birtast jafn oft á skjánum í Hvarfinu og þær stöllur Lína og Ronja. Hún hefur líka valdið Tinnu nokkrum áhyggjum með miklum fimleikaáhuga því það var ekki ætlunin að ýta dömunni inn í þá íþrótt. Hún hefur hins vegar náð fínum tökum á handahlaupum, kollhnýsum (furðulegt orð) og hin ýmsustu hoppum þ.a. mér finnst ekki ólíklegt að kíkt verði í heimsókn til einhvers fimleikaliðsins á næstunni.

Jæja, ætla að lauma tveimur nýlegum gullkornum hérna inn í lokin.
Fyrir stuttu var Þórdís Katla orðinn eitthvað óþolinmóð að fá aðstoð frá mömmu sinni og kallaði ákaft á hana að koma og hjálpa sér. Tinna kallaði innan úr stofu: "Bíddu augnablik, ég er að koma"… Þórdís Katla brást reið við og hrópaði til baka: "Ég heiti ekki Augnablik"!

Stuttu seinna vorum við að horfa á sjónvarpið þegar sú litla kom hlaupandi til okkar og bað mömmu sína að skipta um stöð svo pabbi gæti horft á fótbolta. Það var að vísu engin bolti í sjónvarpinu og ekki hafði ég lagt þetta upp fyrir hana en það virðist vera að eitthvað sé á réttri leið í uppeldinu 🙂

Fínt í bili.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s