Nýtt ár… nýtt upphaf

Langt síðan ritað hefur verið á þessa síðu en sú staðreynd skrifast einungis á það að síðasta vika var eins annasöm og þær gerast. Nýtt ár hafði í för með sér nýtt upphaf því ég hóf störf hjá Þekkingu á öðrum degi ársins. Ég hef því verið í lærdómshlutverki og á fullu að koma mér inn í hlutina þar alla vikuna. Því til viðbótar var lokaundirbúningur fyrir //Cyberg árshátíðina í fullum gangi alla vikuna og held ég að óhætt sé að segja að okkur Jóni og Brjánsa hafi tekist vel til. Allir virtust ánægðir með útkomuna og held ég að við getum verið sáttir við okkar verk. Það hlýtur að koma inn færsla á nýju síðuna fljótlega og þar ætti þá að vera hægt að lesa um framvindu mála daginn góða.

Ég ætla að reyna að vera aðeins virkari hérna framvegis og hripa niður það sem mér liggur á hjarta þegar tími gefst til. Sér í lagi úr því heimsóknartölur sýna að einhver er að fylgjast með. Verð að byrja á að fara í stuttu máli yfir það sem á hefur gengið hjá mér og í þjóðfélaginu síðan ég lét síðast í mér heyra.

Föstudaginn fyrir áramót var hittingur hjá öllum þeim drengjum sem hafa stundað nám við AUM háskólann í USA og var hann vel heppnaður þó svo mæting hefði mátt vera enn betri. Við Ólafur, Hilmar og Stóri-Siggi (e. Big Siggy) hittumst heima hjá þeim síðastnefnda áður en við komum til móts við hina í einkaherbergi á Q-bar. Kvöldið var virkilega fínt og undirritaður hress og kátur líkt og flestir aðrir. Kannski helst til of kátur. Skaut aðeins yfir markið þegar ég tilkynnti Tinnu kl. 00:30 að ég væri væntanlegur heim hálftíma síðar. Síðan dó síminn og með honum skynsemin hjá mér og ég skilaði mér ekki fyrr en klukkan 4 þá nóttina. Það var ekkert sérstaklega vinsælt í Hvarfinu. Fannst þetta ekkert sérstaklega alvarlegt fyrr en ég fór að hugsa að það er auðvitað ekki á vísan að róa með það að koma heill heim úr miðbænum lengur og áhyggjur Tinnu því meira en skiljanlegar.

Þetta með miðbæinn er einmitt nokkuð sem legið hefur á mér. Ég er kominn með nóg af bölvaðri aumingjadýrkuninni í þjóðfélaginu. Held að þetta vandamál sé angi af þeirri lensku. Hjá lítilli þjóð sem stærir sig af háu menntunarstigi, ríkidæmi (velmegun) og siðprýði er óásættanlegt að maður þurfi að búa við það að hættulegt geti verið að heimsækja miðborgina að næturlagi. Nauðganir og óþarft ofbeldi hefur ratað allt of oft inn í fréttatímana að undanförnu og er ég með því ekki að gagnrýna ritstjórn helstu fjölmiðla landsins. Það er löngu ljóst að það þarf að herða refsingar við glæpum til mikilla muna. Fólk á bara ekki að komast upp með það að brjóta lögin alvarlega og geta síðan um frjálst höfuð strokið nokkrum mánuðum eða árum síðar. Ég held að það sé allt of algengt að menn séu að komast auðveldlega upp með fjölda smábrota áður en þeir detta í það að fremja alvarlegt brot líkt og það sem kom upp í Garðastrætinu um daginn. Hvað ætli þeir drengir séu búnir að berja marga til þessa án þess að tekið sé á því? Einnig er það áhyggjuefni ef það er rétt sem fram kemur í Fréttablaðinu í dag að 40% af ákærum fyrir líkamsárásir séu felldar niður.

Jæja, áfram með mína dagskrá síðustu viku. Laugardagurinn fór í gott boð hjá Elínu og Árna Agli þar sem saxafónleikur þess síðarnefnda, skemmtilegur pakkaleikur og glæsilegur matur hjá þeim turtildúfunum stóð upp úr annars afar vel heppnuðu kvöldi. Gamlárskvöld var litlu síðra og tókum við því bara nokkuð rólega heima hjá tengdó. Átum góðan mat, skoluðum honum niður með einhverjum lítrum af rauðvíni og spiluðum Trivial fram á morgun. Síðan þá hafa kvöldin að mestu leyti farið í árshátíðarundirbúning.

Skaupið fannst mér alveg hrikalega gott. Er alltaf að muna eftir nýjum og nýjum atriðum sem fengu mig til að veltast um úr hlátri. Sigurrósar atriðið, Baugsmyndin, Orkuveituauglýsingin, Fischer atriðið ofl. og ofl. var virkilega skemmtilegt. Við skutum ekki miklu upp en keyptum eitthvað lítilræði til að geta skotið upp áður en Þórdís Katla sofnaði. Hún var sofnuð um níu leytið og rumskaði ekki fyrr en foreldrarnir voru svo ósvífnir að vekja hana um 5 leytið og draga hana heim…

Jæja, þetta er að verða fínt. Ætla ekki að fara að henda hérna inn miklu af mínum dýpstu leyndarmálum en verð þó aðeins að deila síðustu læknisheimsókn minni með "fjöldanum" 🙂

Ég fann sem sagt fyrir nokkru eitthvað lítið kýli innan á hendinni á mér og lét taka það eftir nokkrar pælingar með þorra íslensku læknastéttarinnar. Það reynist vera eitthvað létt æxli sem var af góðri sort og óþarfi að vera með málalengingar um það á þessari síðu… Hins vegar verð ég að koma því að sem fram kom í "follow-up"/saumatökuheimsókninni minni í dag. Læknirinn fjarlægði saumana og tilkynnti mér að þetta væri eitthvað dót sem engar áhyggjur þyrfti að hafa af. Varð þó endilega að benda mér á að þetta væri eitthvað sjaldgæft og afar fjarskylt þeim sjúkdómi sem fílamaðurinn frægi glímdi við. Svipurinn á andlitinu á mér þegar hann sleppti orðinu hefur líklega verið "priceless". Litlar líkur eru taldar á því að ég þurfi að glíma við eitthvað svipað en ef þið sjáið minna af mér á næstunni, eða mætið mér með lambúshettu á góðviðrisdegi (eða er það ekki lambhúshetta… Jón veit það) þá verðið þið nógu kurteis til að spyrja ekki afhverju 🙂

Jæja, fínt í bili. Hargreaves á leiðinni og Larsson mættur og glimrandi hamingja á Trafford. Jón setti bjórverksmiðju undir að Larsson klikki… held að það sé skot langt yfir markið. Larsson virðist nefnilega ætla að hitta á rammann enn eitt árið! We’re going for the treble!!!

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s