Að fleygja steinum úr glerhúsi…

Nú er maður ársins alveg að missa sig. Time valdi á dögunum notendur blog-, myspace- og þess háttar síðna sem menn ársins og byggðu það á því að þessi mikið nýtta leið fyrir lýðinn til að halda úti öflugum og óheftum skoðanaskiptum væri helsta afrek ársins 2006. Ég ætla að nýta mér þetta og vona að það skili einhverju. Þó ekki sé nema örlítilli útrás fyrir undirritaðan. Hér á eftir fylgir saga mín í kvöld í löngu máli:

Best er að byrja á því að tiltaka það að ég fór í litla aðgerð í morgun og hafði því hugsað mér að slappa af fyrir framan sjónvarpið í kvöld. Það fór út um þúfur. Gæti af þeim sökum verið heldur grimmari og pirraðri heldur en hinn almenni, kúgaði, íslenski viðskiptavinur.

Ég hef þó nokkuð oft kvartað yfir því síðan ég fluttist aftur hingað til lands frá Bandaríkjunum hversu ömurleg þjónusta fyrirtækja er í garð viðskiptavina hér á landi. Í USA fannst mér viðkvæðið jafnan vera að viðskiptavinurinn hefði ekki einungis alltaf rétt fyrir sér heldur væri hann einnig eftirsóttur af fyrirtækinu. Hér er tilfinning mín á hinn veginn, þ.e. að ég hafi iðulega rangt fyrir mér og að ég eigi helst að koma mér burt úr viðskiptamannaskrá fyrirtækisins. Þó er þess krafist að ég greiði fyrirtækinu fyrir þjónustu sem "hefði getað orðið". Eitthvað á þessa leið kemur þjónustustefna margra íslenskra fyrirtækja mér fyrir sjónir.

Í kvöld klukkan sex kveikti ég á sjónvarpinu í nýja sjónvarpsherberginu okkar Tinnu, sem hefur verið í góðri virkni síðan það var klárað fimm mínútum fyrir jól. Mér til mikilla vonbrigða vantaði þó nokkrar af þeim stöðvum sem ég er að greiða 365 mönnum fyrir að senda mér. Til að hefja útskýringu á flækjustigi þess að versla við fyrirtækið skal eftirfarandi tekið fram: Ég hringdi í 515-6100 til að fá áskrift (þjónustuver 365) en sótti myndlykilinn minn í verslun Vodafone (að því er ég best veit í eigu 365). Þar sem ég greiði þeim í 365 fyrir áskriftina lá beinast við að hringja í þá og óska aðstoðar.

Drengurinn í símanum talaði við mig í 30 mínútur og fórum við saman í gegnum allt mögulegt snúrutog innan íbúðar, börðum fjarstýringuna nokkrum sinnum, sjónvarpið oftar og heimsóttum nágranna mína þangað til hann fann það út sem ég hafði vitað frá byrjun. Afruglarinn hafði gefið sig. Ég var því sendur í verslun Vodafone og beðinn að sækja nýjan afruglara, sem ég gerði stuttu síðar.

Þegar heim var komið með nýja lykilinn fylgdi ég öllum leiðbeiningum og fagnaði því þegar á lokastigið var komið að ég gæti a.m.k. horft á íþróttamann ársins á Rúv+ eða Sýn+. Mér til skelfingar var hins vegar engin + stöð á lyklinum þegar síðasta skrefi lauk. Raunar er engin stöð á lyklinum. Því var ekkert að gera nema að hringja í snillingana hjá 365 aftur. Ég gerði það. Að loknum hálftíma með kjarneðlisfræðingnum í símanum komumst við aftur að sömu augljósu niðurstöðunni. Bilaður afruglari. Ég (orðinn frekar æstur) spurði (ekki kurteisislega) hvern ég þyrfti að drepa til að fá að sjá eitthvað af þeim stöðvum sem ég borga 8000 krónur á mánuði fyrir. Mér til engrar undrunar benti hann á systurfyrirtækið Vodafone. Þeir útveguðu afruglarann, þeirra væri vandamálið og þeirra að sjá um allar skaðabætur í málinu. Ég hringdi því í 1414 (Vodafone)…

Nú hef ég lokið tveimur innihaldslausum símtölum við tvo doktorsnema í þjónustufræði á símaborði Vodafone. Sú fyrri benti mér á að heimsækja verslunina sem útvegaði mér lykilinn og kvarta beint við þau. Hún gæti lítið aðstoðað mig. Skildi þó gremju mína yfir því að eyða rúmum þremur tímum og ótöldum bensínlítrum í þetta vandamál. Skilningsrík og skörp dama?! Þegar ég hafði í bræði minni skellt á hana ákvað ég að hringja aftur og reyna að taka faglega á málinu. Samstarfskona hennar svaraði í símann. Ég útskýrði vandamál mitt, líklega í 7. skipti í kvöld. Þegar hún hafði hlustað þolinmóð spurði ég einfaldlega við hvern ég ætti að tala varðandi hugsanlegar skaðabætur fyrir vandræði mín þetta kvöldið og líklega uppsögn á bindisamningum fyrirtækja 365. Endurgjaldslaust útskýrði ég fyrir henni að fyrirtækið hlyti að vera með einhverjar boðleiðir sem vísuðu málum líkt og mínum inn á borð gæðastjóra. Ég bauð ekki uppá frekari ókeypis ráðgjöf í gæðamálum. Hún þagði. Ég einfaldaði því málið fyrir hana og benti á að ég greiddi fyrirtæki hennar 8000 krónur á mánuði fyrir að fá að horfa á sjónvarpstöðvar þess í afruglarann minn. Hún stöðvaði mig og benti á að ég væri ekki að greiða Vodafone fyrir það heldur 365. Vodafone sæi einungis um að dreifa afruglurum. Ég útskýrði fyrir henni að sú dreifing hefði skapað vandamál mitt þetta kvöldið og að þeir væru eflaust að fá hluta af þeim 96.000 krónur sem ég greiði á ári í sinn hlut fyrir dreifinguna. Hún þagði aftur. Þegar ég hafði útskýrt þetta fyrir henni einu sinni enn einfaldaði ég spurninguna og spurði við hvern ég ætti að tala til að losna undan þessum bindisamningum sem eru sérgrein hennar fyrirtækis. Hún sagði sjálfsagt að benda mér á það. Benti mér reyndar fyrst á að þetta væri ekki hennar fyrirtæki, en að það héti 365. Þangað fer ég á morgun og fer ekki út fyrr en ég er laus við þessa andskota af mínu korti.

Ég held að Sigmundur Ernir, Þórir og félagar ættu að taka til garðinum hjá sér áður en þeir fara að róta í görðum nágrannanna. Umfjöllun um samskipti við Baugsfyrirtækin er líklega ámóta hneykslanleg og rekkjubrögðin í Byrginu. Mér datt í hug að senda erindi mitt til fjölmiðla en komst auðvitað að því að flestir ef ekki allir eru í eigu þessara aðila. Merkilegt. RÚV og Mogginn að vísu enn utan blokkar að því ég best veit.

Vona að einhver nenni að lesa þetta. Mér finnst það hlutverk mitt sem manns ársins hjá Time að upplýsa um svona óþverra vinnubrögð. Ég er viss um að Sigmundur og Þórir eru mér sammála.

Ég ætla hins vegar ekki bara að skapa vandamál og leiðindi, líka lausnir. Legg því til ef einhver innanbúðar hjá 365 les þetta að þeir útskýri samband 365 og Vodafone fyrir doktorsnemunum á símaborðinu. Mér finnst a.m.k. líklegt að eitthvað samband sé til staðar úr því fyrirtækin vísa hvort á annað þegar kemur að því að draga þau til ábyrgðar.

Djöfull er ég pirraður.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s