Report

Þá er maður mættur úr öldrunarafslöppuninni á Kanarí, hvítur og sætur. Ég ákvað fyrir ferðina að einbeita mér að því að styrkja þennan djúpa fallega hvíta lit sem ég ber og ég held að það hafi bara lukkast ágætlega. Sólin gekk líka í lið með mér og faldi sig reglulega á bak við skýin til að ég þyrfti nú ekki að breyta vegabréfinu mínu. Það var nefnilega einmitt það sem ég óttaðist eftir fyrri kynni mín af Spáni – enda ekki að ástæðulausu að spænska þjóðin þekkir mig undir nafninu „El Negro“. Hvað sem því öllu líður þá var allavega gott að komast í aðeins meiri hita og bræða stærstu grýlukertin úr nefinu. Ég dvaldi líka á alveg fáránlega flottu hóteli sem ber nafnið H10 og á 5 stjörnurnar sínar alveg skildar.

Ég fór náttúrulega aðallega í þessa ferð til að kynna mér hvað meðlimir klúbbsins gætu haft fyrir stafni þegar að eftirlaunaárunum kemur og við viljum hvíla okkur á einkaeyjunni. Og ég komst að ýmsu merkilegu. T.a.m. var 30 metrum fyrir framan hótelið mitt þessi líka fína nektarströnd. Það er merkilegt hvað það kemur manni til að sjá áttræðar þýskar konur passa sig á því að fá ekki bikinifar. Ég komst líka að því að mikill og stór hluti íslensku þjóðarinnar toppar ennþá í djamminu í flugvélinni á leið á sólarströnd. Mér varð á orði hvers vegna væri verið að hafa áhyggjur af því að unglingar kynnu ekki að fara með vín þegar 100 miðaldra Íslendingar missa sig þegar vodkaglasið fer niður fyrir 200 kallinn. Það er allavega fátt jafn hallærislegt og að sitja í flugvél og heyra fulla Íslendinga fagna eins og við höfum unnið Eurovision þegar rellan lendir. Magnað.

Æi… nenni ekki að skrifa meira um hallærislegheitin á Kanarí. Ferðin var a.m.k. frábær og mæli ég eindregið að menn reyni að skauta til heitari landa þegar það verður hvað kaldast á Ísalandi.

Síðan verð ég að lokum að koma að sögu ferðarinnar. Þrándur bróðir hennar Tinnu sem er einhleypur og því eins og gefur að skilja ávallt stemmdur til að kanna næturlífið hvar sem hann er staddur í heiminum kíkti reglulega út á ströndinni. Það væri kannski ekki í frásögu færandi nema fyrir það að árangur stráksins eitt kvöldið skapaði ansi skemmtilegar kringumstæður sem eru efni í ágæta sögu. Hann kynntist ungum skandinavískum stúlkum og eins og atvinnumanni sæmir þá kom hann á þessum hefðbundnu símanúmeraskiptum. Það fór þó þannig að stúlkukindurnar týndu símanum sínum og höfðu eðlilega af því miklar áhyggjur. Þær dóu þó ekki ráðalausar og skiluðu sér í móttökuna á hótelinu okkar daginn eftir til að koma skilaboðum áleiðis til Casanova. Það reyndist á endanum þrautinni þyngra fyrir þær og Spánverjann sem var þeim til aðstoðar að finna gest með þeirra útgáfu af nafninu Þrándur í hótellistanum. Á endanum töldu þær sig hafa fundið lendingu þegar Spánverjinn benti þeim á að í herbergi 532 væri maður að nafni Thorvaldur – BINGÓ! Þær skrifuðu því samviskusamlega miða til Þorvaldar þar sem þær útskýrðu vandamálið með símann og bentu honum bara á að heimsækja sig á þeirra hótel því þær vildu endilega upplífa kvöldið ævintýralega aftur. Móttakan á hótelinu á sinn þátt í stjörnunum fimm því skilaboðunum var komið áleiðis undir dyragættina hjá Þorvaldi um leið og stúlkurnar höfðu kvatt hótelið okkar. Menn geta því rétt ímyndað sér hversu sátt Frú Þorvaldur var þegar hún las skilaboðin til mannsins hennar… enda komumst við að því síðar að Þorvaldur hafði einmitt farið út með tveimur vinum sínum kvöldið áður! Frú Þorvaldur ber væntanlega ótrúlegt traust til mannsins síns því honum tókst á endanum að sannfæra hana um að þetta hlytu að vera mistök og þegar þau fyrir tilviljun kynntust Þrándi í matnum þá skýrðist málið endanlega. Það var hlegið dátt að þessu á eftir enda hélt ég að svona misskilning væri bara hægt að framleiða í Hollywood.

Jæja, fínt í bili.
El Negro

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s