Stundum skrifar maður bara til að skrifa

Maður er líklegast löngu kominn á tíma með að skrifa hérna inn enda alllangt síðan ég notaði málgagnið síðast. Það helgast náttúrulega aðallega af því hversu lítið ég hef fram að færa þessa dagana enda fátt nýtt að frétta í frostinu. Þetta ógeðfellda kuldakast hefur nefnilega ótrúlega slævandi áhrif á framleiðnina hjá manni og mig hefur mest langað til að bora mig undir sængina á morgnana og fara ekki undan henni fyrr en þiðnar á ný.

Það hefur líka verið um fátt jákvætt að fjalla síðustu daga. Jón er búinn að segja allt sem segja þarf um blessaða kennarana. Sökum margvíslegra tengsla við stéttina ákvað ég, eftir því sem á baráttuna leið og háttalag kennara varð heimskulegra, að draga mig bara í hlé og hætta að tjá mig um málið. Nú hefur þetta allt saman fengið endi og hvort sem hann er farsæll eða ekki verða allir búnir að gleyma atburðum síðustu mánaða að ári liðnu.

Djövull er kalt. Ég get bara ekki hætt að svekkja mig á því. Ég býst líka alltaf við því að það fari að rætast úr veðrinu og hef t.a.m. hvorki fjárfest í sköfu né vetrardekkjum. Skóhornið og sumartútturnar verða að duga þangað til hlýnar á ný. Maður verður jú bara að þrauka þetta helvíti. Við getum náttúrulega ekki allir tekið það á okkur að spranga suður á Spáni því einhverjir verða að halda starfinu gangandi hérna á fróni.

Og í beinu framhaldi af því: Ég fór norður á Akureyri í byrjun mánaðarins og tókst mér að sannfæra sjálfan mig um fágæti þessa höfuðstaðar norðurlands. Það voru viss vonbrigði hversu lítið var um að vera þegar ég eyddi viku í ágústmánuði fyrir norðan en þeir dagar voru alger hátíð miðað við vetrarheimsóknina nú. Það er hreinlega ekkert um að vera á Akureyri! Mér fannst alltaf jafn fyndið þegar ég gekk upp listagilið (sem er gatan upp úr miðbænum og samanstendur af einu kaffihúsi og 2 listasöfnum) að sjá standa stórum stöfum á vegg: Akureyri – The Cultural Capital of Iceland. Ég leyfi mér að stórefast um að Akureyringar standi undir þessari yfirlýsingu. Tja, nema þetta sé allt einn stór listagjörningur – þ.e. að búa til 15000 manna draugabæ. Ég heimsótti að vísu ekki jólahúsið (Akureyri’s greatest attraction) en ég stórefa að það hefði bjargað vikunni.

Og talandi um íbúðir. Það virðist enginn ætla að minnast á það hér á síðunni að Stefán og Guðbjörg fjárfestu í einu stykki. Sólvallagata var það og þar með styrkist enn þessi kjarni klúbbmeðlima sem heldur til í 101. Íbúðin er hin glæsilegasta (a.m.k. af myndum af dæma) og eins og áður segir á besta stað í bænum.

Horfði að sjálfsögðu á Idol áðan og varð ekki fyrir vonbrigðum – gæðasjónvarpsefni. Maður gat nú sagt sér það fyrir þáttinn að þessar tvær sem komust áfram myndu vinna þennan hóp. Það merkilega var að gaurinn sem lenti í þriðja sæti skyldi komast svona langt. Ég er enn að velta því fyrir mér hvaða hópur það er sem dældi atkvæðum á hann…

Jæja, búinn að velja draumaliðið og lengjuna og mál til komið að fara að koma sér í háttinn.

Fyrir þá sem vilja njóta góðs af lengjukunnáttu minni þá smelli ég seðlinum á netið (easy money):

Man Utd. – Charlton: 1

Arsenal – WBA: 1

Crystal Palace – Newcastle: 2

Malaga – Valencia: 2

Vitesse – PSV Eindhoven: 2

Bayern Munchen – Kaiserslautern: 1

Já, svona getur maður bullað þegar maður situr einn við tölvuna klukkan 20 mín yfir 12 á föstudagskvöldi. Ætli maður taki bara ekki Kidda á þetta í fyrramálið og eyði þessari ágætu færslu út?

Fínt í bili.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s