Gagnrýni

Nú stendur yfir eitt af þessum tímabilum sem teljast verður hátíð fyrir hinn almenna íþróttaunnanda. Fjölmiðlar landsins og heimsins eru yfirfullir af íþróttaefni enda Ólympíuleikar í gangi, enski boltinn og meistaradeildin farin af stað auk þess sem knattspyrnan hér heima er í ákveðnu hámarki. Það er því alls ekki leiðinlegt þessa dagana að vera alæta á íþróttaefni eins og undirritaður gefur sig út fyrir að vera. Annars finnst mér þegar ég lít yfir þetta eins og maður þurfi ekki að hafa sérstakan íþróttaáhuga til að skemmta sér þessa dagana, næga skemmtun er að finna í allri gagnrýninni sem skapast þegar íþróttaviðburðir fara af stað. Þegar ég hugsa um síðustu daga í íþróttasamhengi þá koma upp fleiri minnistæðar ádeildur á íþróttamenn og dómara heldur en glæstir sigrar: Handboltalandsliðið hefur fengið ærlega á baukinn, bandaríska draumaliðið verður líklega ekki tekið í sátt þó svo þeir fari heim með Ólympíugull í vasanum, Jón Arnar er gagnrýndur fyrir að vera með illa teygða vöðva, Kóreumenn kvarta yfir dómaraskandal í fimleikum þrátt fyrir að það eina sem allir virðist vera sammála um í sambandi við þá íþrótt sé að ómögulegt sé að meta hver réttmætur sigurvegari sé og svo mætti lengi telja. Meistarflokkur Vals í knattspyrnu karla liggur meira segja undir harðri gagnrýni þessa dagana þrátt fyrir að tróna á toppi deildar sinnar með úrvalsdeildarsæti innan seilingar. Er ég þó engan veginn að hlaupast undan þeirri gagnrýni enda líklega sekur um slælega frammistöðu á fótboltavellinum í síðasta leik. Það er samt gaman að velta þessu aðeins fyrir sér.

Ljósi punkturinn síðustu vikurnar er þó án efa sigur Íslendinga á Ítölum þar sem ég var á meðal þeirra rúmu 20000 áhorfenda sem settu aðsóknarmet á Laugardalsvellinum. Það var frábært að sjá hvað Íslendingarnir voru góðir og er mér þá alveg sama þó svo þetta hafi bara heitið vináttuleikur – hann var það fyrir bæði liðin. Það var hreinlega ekki hægt að gagnrýna íslenska liðið eftir glæstan sigurinn. Eða hvað? Það er nefnilega vel hægt. Því steininn tók náttúrulega úr í allri þessari gagnrýni þegar framkvæmdastjóri Southampton var rekin daginn eftir að hafa unnið glæstan 3-2 sigur á Blackburn og komið sínum mönnum á gott ról í upphafi tímabils. Hann var rekinn vegna þess hve umfjöllunin um liðið var neikvæð og gagnrýnin á skipulag hans var orðin hörð. Ótrúlegt? Kannski ekki. Líklegast mega Ásgeir og Logi bara þakka fyrir að halda starfinu þegar litið er til þess að Ítalirnir stjórnuðu leiknum á löngum köflum í síðari hálfleik.

Að lokum verð ég að benda á augljósasta dæmið í allri þessari gagnrýnisþörf fjölmiðlana. Þá eru menn hættir að gagnrýna lið og dómara og beina spjótum sínum að greininni sjálfri. Í gær var nefnilega staðan sú að aðeins einn íslenskur keppandi olli vonbrigðum á Ólympíuleikunum. Þá þótti það ekki efni í heilan þátt að taka hans frammistöðu fyrir þannig að fyllt var upp í með smá fyrirfram gagnrýni á landsliðið í handbolta. Þegar það dugði ekki heldur byrjaði Logi Bergmann Eiðsson að gera lítið úr þeirri ágætis íþrótt strandblaki og einblíndi á þátttöku kvenna í íþróttinni. Logi gaf í skyn að strandblakið væri meiri kroppasýning heldur en íþrótt og hvatti fólk til að velta því fyrir sér hvort blakið ætti heima á Ólympíuleikunum. Það er klárt mál að blakið er meira fyrir augað heldur en skotfimin og +78 kg júdókeppni kvenna, en að gefa í skyn að þetta sé ekki íþrótt er náttúrulega bara fáfræði. Ég hef eins og margir aðrir prófað að spila blak á sandi og það er erfiðara en margur heldur. Varðandi búningana þá held ég að ómögulegt væri að stunda þessa íþrótt á ströndinni í 30°C hita í síðum buxum og lopapeysu. Umræða um að þetta sé ekki íþrótt er hættuleg því ljóst er að sjónarvsiptir yrði af því ef þessi grein hyrfi af skjánum.

Nóg um íþróttirnar. Menningarnóttin kom og fór síðasta laugardag og Jón gerði henni góð skil hér á síðunni. Bomban er eflaust maður helgarinnar enda var hann úti fram undir morgun og mætti síðan galvaskur í vinnuna nokkrum tímum síðar. Sjálfur olli ég vísast vonbrigðum enda lagði ég ekki í raðabrölt og Ólympískar ýtingar á skemmtistöðum borgarinnar.

Helgin var hins vegar bara rétt að byrja hjá Jóni þegar hann mætti í vinnuna á sunnudeginum. Þegar bomban var rétt búinn að koma sér fyrir ákváðu misvitrir farþegar um borð í einni af flugvélum félagsins að skemma enska boltann fyrir kallinum. Einhverjum vitleysing datt í hug að hóta sprengingu og gerði það að verkum að bomban (e. The Bomb) stóð í stanslausu stappi langt fram á nótt. Ekki nóg með að Jón þyrfti að sjá um farþega, áhafnir og aðra starfsmenn félagsins heldur þurfti hann einnig að sinna þeim fjölmörgu fréttamönnum sem voru uppiskroppa með íþróttagagnrýni. Því var það svo að bomban gaf upplýsingar um hugsanlega sprengju í samtölum við BBC, CNN og fleiri stórar fréttastofur en til að forðast misskilning notaði hann Jónsnafnið. Það fer að verða spurning hvort ekki eigi að sækja um samþykki fyrir Bombunafninu hjá Hagstofunni. Það er ljóst að fáir standa jafnvel undir slíku viðurnefni og Jón Eggert.

Látum þetta gott heita í bili. Allri gagnrýni á þessa grein vísa ég til Bombunnar enda er hann orðinn þaulvanur að svara spurningum ágengra fréttamanna.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s