Árslistinn 2014

Árslistinn á Spotify

Líkt og fyrri ár tók ég saman lista yfir þau lög sem mér féllu best í geð á síðasta ári. Listinn lítur dagsins ljós óvenju seint þetta árið, enda búið að vera of mikið að gera hjá undirrituðum síðustu misseri. Talsvert samhengi er milli fjölda spilana í vefþjónustum og þessa lista, en þó ekki algjört. Þannig náði lagið Chandelier með Sia ekki inn á listann þrátt fyrir að bera höfuð og herðar yfir önnur lög í fjölda spilana. Sýnir það betur en margt annað hve ört þau þverra yfirráðin yfir tónlist heimilsins hjá undirrituðum. Augljós fylgifiskur þess að deila heimili með fjórum fjörugum kvenmönnum.

Lögin í engri sérstakri röð:

Horse Thief Little Dust
Future Islands Seasons (Waiting On You)
Hozier Sedated
Caribou Can’t Do Without You
Lykke Li No One Ever Loved
Priory Weekend
Bombay Bicycle Club Carry Me
Sun Kil Moon Carissa
Champs My Spirit Is Broken
Jake Bugg Messed Up Kids
Death Vessel (Feat Jónsi) Ilsa Drown
Alt J Every Other Freckle
Kaleo All The Pretty Girls
FM Belfast The End
Ásgeir Trausti Frá mér til ykkar
Valdimar Læt það duga
Júníus Meyvant Color Decay

Síðbúin jólakveðja

Fjölskyldan Fjallalind var óvenju afslöppuð þennan desembermánuðinn. Svo afslöppuð að það hreinlega gleymdist að koma árlegu jólafréttabréfi í prentun og dreifingu. Við treystum því þó að vinir og ættingjar hafi komið jóladagskaffibollanum niður án bréfsins góða. Þetta árið höfum við því ákveðið að treysta á afar víðtæka (en síðbúna) rafræna dreifingu á skjalinu góða. Hér er jólafréttabréf ársins.

Fjölskyldan hefur að okkur finnst oft haft meira fyrir stafni en þetta árið. Vor og sumar einkenndist af hreiðurgerð og þó fjölskyldufaðirinn hafi farið í nokkrar utanlandsferðir á árinu var lítið um ferðalög hjá fjölskyldunni. Við heimsóttum þó Norðurland nokkrum sinnum í tengslum við fimleika- og fótboltamót og skemmtum okkur vel. Eftir að Hrafntinna fæddist síðla júnímánaðar hefur síðan eðilega mikill tími farið í upprifjun á ungbarnauppeldi.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár!

Ratleikur í Reykjavík

Í dag skellti ég mér ásamt elstu tveimur stelpunum í ratleik í miðbæ Reykjavíkur. Við höfðum ákveðið að finna okkur eitthvað sniðugt að gera og eftir stutt hugarflug við morgunverðarborðið var þetta niðurstaðan. Ýmsum uppástungum var óvænt kastað út af borðinu, s.s. heimsókn í Sirkus Íslands, ferð í Bláa Lónið ofl., en í lok dags er undirritaður afar sáttur við val stúlknanna.

Við studdumst við skemmtilegt skjal sem ég fann á netinu með Google leit. Skjalið var hannað fyrir nemendur í Valhúsaskólaskóla á Seltjarnarnesi og voru spurningarnar og þrautirnar bæði fræðandi og skemmtilegar. Afi, hundir Alex og langamma slógust í hópinn á síðustu stundu og skemmtu sér ekki síður en við stelpurnar. Ég kann höfundi skjalsins bestu þakkir fyrir framtakið og fæ að vísa á það með hlekk hér.

Eftir þennan skemmtilega dag velti ég því fyrir mér hvers vegna öll bæjarfélög útbúa ekki sniðuga ratleiki á borð við þennan. Þetta er einföld og ódýr leið til að draga fjölskyldufólk á staðinn og ferð eins og okkar skyldi nokkrar krónur eftir í miðborginni. Við heimsóttum að sjálfsögðu kaffihús og gerðum vel við okkur í mat og drykk. Kannski ég taki að mér að henda upp einum slíkum fyrir okkur Kópavogsbúa…

Trampólín

Í gær fjárfestu stúlkurnar í nýju dóti fyrir garðinn. Og í von um að fá frið til að horfa á úrslitaleik Meistaradeildarinnar samþykkti undirritaður að taka að sér uppsetningu á hvíldardeginum.

Maður hefði haldið að uppsetning á einni hoppdýnu væri einföld… Það var öðru nær. Með góðri hjálp frá afa Steina tókst mér og stelpunum þó að koma dýnunni upp eftir langt streð. Nú geta þær hoppað og skoppað að vild og ég kominn með barnapössun fyrir HM.

Sunnudagssteikin undirbúin

Í kvöld á fjölskyldan von á gestum í mat og verður boðið upp á nautakjöt. Eins og flesta aðra sunnudaga er búið að útbúa matardagatal vikunnar og allt klárt fyrir verslunarferðina vikulegu.

Sunnudagssteikin sem elda á í kvöld er einn af síðustu bitunum af nautinu góða sem við fjárfestum í sl. haust. Ætlunin er að hægelda innralæri og að styðjast við aðferð sem fannst með Google leit á síðunni Eldhússögur (sjá hér). Með nautinu ætlum við að útbúa einfalt salat og hafa bæði Bernaise sósu sem og heita sósu til mæðlætis. Að sjálfsögðu verður síðan boðið upp á kartöflur, sem við ætlum að steikja svo upp úr hvítlauki og olíu líkt og lýst er á síðu Nönnu Rögnvaldar hér. Svo er bara að sjá hvernig til mun takast, en um það verða aðrir síðuskrifarar að dæma.

Í minningu Sigga afa

Ég skrifaði minningargrein um afa í vikunni, en hann lést í síðustu viku eftir nokkuð stutta baráttu við krabbamein.

Morgunblaðið setur nokkuð stífar reglur um fjölda stafa og því lenti ég í talsverðum vandræðum með textann. Stytting hans hafðist að lokum, en ég vildi birta greinina í fullri lengd hér á síðunni.

Sigurður Sæberg Þorsteinsson (f. 17.7.1942 – d. 19.3.2014)

Við kveðjum í dag okkar allra besta mann.

Stoppi hver klukka! Klippið símavír!
Og kastið beini’ í seppa. Hann er hávært dýr.
Píanó þagni! Deyfðan trumbudyn!
Sjá, hér er kistan. Syrgið látinn vin!

Lát flugvélar emja yfir landi og sjó,
skrifa’ á loftin skýjastöfum að hann dó.
Klæð hvítar dúfur svörtu af harmi eftir hann,
svarta hanzka látið á hvern lögreglumann.

Já hver þarf nú stjörnur? Lát myrkvast himins hjól,
pakkið saman tungli, hlutið sundur sól.
Sturtið niður sjónum, og sópið trjám burt.
Um svona hluti verður aldrei framar spurt.

W.H. Auden / Þorsteinn Gylfason

Ég hef alla tíð verið stoltur af afa, ömmu og fjölskyldunni þeirra. Líklega montinn. Við erum kærleiksrík og jafnvel þó við séum ekki alltaf sammála erum við afar samrýmd. Við eigum það sameiginlegt að þykja fátt betra en að vera saman. Ómæld er gleðin sem stundirnar með börnum afa og barnabörnum hafa veitt mér og síðar Tinnu og stelpunum. Hvort sem er á Digranesveginum, í búðinni, fellihýsinu, Ársölum eða hressu fjölskylduteiti á Akureyri. Minningar af laufabrauði, sláturgerð, ferðalögum og jafnvel málningarvinnu eru margar og góðar.

Þannig var líka afi; kærleikurinn holdi klæddur og fullur af lífsgleði og húmor. Gleðin og umhyggjan slík, að færi ég mínum dætrum og þeirra börnum helminginn verð ég úrvals faðir og vonandi síðar afi. Okkur, „gullunum“ hans, hampaði afi með slíkum hætti að ekkert var betra en kveðjan hans. Það mátti enda allt í hans húsum og hvergi var betra að vera. Líklega var ég kominn hættulega nálægt fullorðins árum þegar ég píndi mig til þess að hætta að bóka helgargistingar í Engihjallanum. Þá hafði líka fjölgað í hópnum og það veitti mér þá jafn mikla gleði að sjá hvernig amma og afi dekruðu systur mína og frændsystkini með sömu yndislegu uppskriftinni. Súkkulaðirúsínur, tertur, spjall og spil langt fram eftir laugardagskvöldum er blanda sem erfitt er að toppa.

Þegar afi háði eina af sínum erfiðu orrustum var ég á unglingsaldri. Veturinn þann eyddi ég hverju laugardagskvöldi með þeim ömmu í félagsvist, í hópi annarra baráttumanna. Einhverjum hefur líklega þótt það göfugt af piltinum, en raunin var sú að hvergi var betra að vera en í félagsskap þeirra. Ekki efaðist ég líka eina stund um að afi hefði betur í baráttunni, þó ég vildi óska að hann hefði lagt þann djöfulinn fyrr.

Lítið hefur breyst á fullorðinsárum. Heimsóknir okkar Tinnu og stelpnanna í Ársali og matarvagninn hafa verið ófáar, enda vita þær fátt betra en að kíkja í kaffi eða mat í Ársali. Afi var líka slíkur meistari á grillinu að leitun var að öðrum eins. Við Tinna höfum nú í 13 ár reynt að endurgera svínarifin, sem við fengum sumarkvöld eitt í matarvagninum og teljast enn á topplistanum í okkar matarbókum. Mér er til efs að við munum nokkurn tíma ná því, né bragða jafn gott hreindýrakjöt og hina árlegu jólaboðssteik afa. Ómetanlegt hefur verið að geta hringt í hann og leitað ráða varðandi eldamennskuna. Á aðfangadag fórum við yfir jólamatinn í sameiningu og afi vildi ólmur miðla fróðleik þótt  slappur væri hann þann daginn.

Blíðari og ljúfari maður var vandfundinn. En afi var líka hörkutól, sem kvartaði sjaldan. Allt of sjaldan. Ekki einungis kenndi hann okkur að elska og virða náungann heldur ól hann með fordæmi sínu svo dugleg og stundvís börn að eftir er tekið. Vonandi skilar sér eitthvað af dugnaðinum til mín og minna, þó líklega sé útséð með að mér takist að læra stundvísina. Stundvísina sem hann vildi þó svo gjarnan kenna mér allt fram á síðasta dag. Afi var dugnaðarforkur og veigraði sér ekki við vinnu eða verkefni. Það virtist líka sama hvað herjaði á hann, alltaf virtist hann hafa betur. Þar til í vetur.

Og nú er hann farinn. Rigningin ber gluggana úti og miðað við vatnið á lyklaborðinu virðist húsið mígleka. Söknuðurinn er mikill og sár.

Elsku afi. Nafnbótina sem ég færði þér fyrir mörgum árum berðu um alla eilífð. Sú keppni var ójöfn. Ég treysti því að þú fylgist grannt með mér og  stelpunum og hvort sem við sitjum í skötu á Sögu eða við eldhúsborðið í Ársölum verðir þú alltaf á meðal okkar. Þú elskaðir ekkert meira en hana ömmu og óskaðir þess heitast að við pössuðum hana fyrir þig. Það er loforð sem verður auðvelt að efna. Takk fyrir allt elsku afi okkar.

Þín Siggi, Tinna Margrét, Þórdís Katla og Signý Hekla.