Í minningu Sigga afa

Ég skrifaði minningargrein um afa í vikunni, en hann lést í síðustu viku eftir nokkuð stutta baráttu við krabbamein.

Morgunblaðið setur nokkuð stífar reglur um fjölda stafa og því lenti ég í talsverðum vandræðum með textann. Stytting hans hafðist að lokum, en ég vildi birta greinina í fullri lengd hér á síðunni.

Sigurður Sæberg Þorsteinsson (f. 17.7.1942 – d. 19.3.2014)

Við kveðjum í dag okkar allra besta mann.

Stoppi hver klukka! Klippið símavír!
Og kastið beini’ í seppa. Hann er hávært dýr.
Píanó þagni! Deyfðan trumbudyn!
Sjá, hér er kistan. Syrgið látinn vin!

Lát flugvélar emja yfir landi og sjó,
skrifa’ á loftin skýjastöfum að hann dó.
Klæð hvítar dúfur svörtu af harmi eftir hann,
svarta hanzka látið á hvern lögreglumann.

Já hver þarf nú stjörnur? Lát myrkvast himins hjól,
pakkið saman tungli, hlutið sundur sól.
Sturtið niður sjónum, og sópið trjám burt.
Um svona hluti verður aldrei framar spurt.

W.H. Auden / Þorsteinn Gylfason

Ég hef alla tíð verið stoltur af afa, ömmu og fjölskyldunni þeirra. Líklega montinn. Við erum kærleiksrík og jafnvel þó við séum ekki alltaf sammála erum við afar samrýmd. Við eigum það sameiginlegt að þykja fátt betra en að vera saman. Ómæld er gleðin sem stundirnar með börnum afa og barnabörnum hafa veitt mér og síðar Tinnu og stelpunum. Hvort sem er á Digranesveginum, í búðinni, fellihýsinu, Ársölum eða hressu fjölskylduteiti á Akureyri. Minningar af laufabrauði, sláturgerð, ferðalögum og jafnvel málningarvinnu eru margar og góðar.

Þannig var líka afi; kærleikurinn holdi klæddur og fullur af lífsgleði og húmor. Gleðin og umhyggjan slík, að færi ég mínum dætrum og þeirra börnum helminginn verð ég úrvals faðir og vonandi síðar afi. Okkur, „gullunum“ hans, hampaði afi með slíkum hætti að ekkert var betra en kveðjan hans. Það mátti enda allt í hans húsum og hvergi var betra að vera. Líklega var ég kominn hættulega nálægt fullorðins árum þegar ég píndi mig til þess að hætta að bóka helgargistingar í Engihjallanum. Þá hafði líka fjölgað í hópnum og það veitti mér þá jafn mikla gleði að sjá hvernig amma og afi dekruðu systur mína og frændsystkini með sömu yndislegu uppskriftinni. Súkkulaðirúsínur, tertur, spjall og spil langt fram eftir laugardagskvöldum er blanda sem erfitt er að toppa.

Þegar afi háði eina af sínum erfiðu orrustum var ég á unglingsaldri. Veturinn þann eyddi ég hverju laugardagskvöldi með þeim ömmu í félagsvist, í hópi annarra baráttumanna. Einhverjum hefur líklega þótt það göfugt af piltinum, en raunin var sú að hvergi var betra að vera en í félagsskap þeirra. Ekki efaðist ég líka eina stund um að afi hefði betur í baráttunni, þó ég vildi óska að hann hefði lagt þann djöfulinn fyrr.

Lítið hefur breyst á fullorðinsárum. Heimsóknir okkar Tinnu og stelpnanna í Ársali og matarvagninn hafa verið ófáar, enda vita þær fátt betra en að kíkja í kaffi eða mat í Ársali. Afi var líka slíkur meistari á grillinu að leitun var að öðrum eins. Við Tinna höfum nú í 13 ár reynt að endurgera svínarifin, sem við fengum sumarkvöld eitt í matarvagninum og teljast enn á topplistanum í okkar matarbókum. Mér er til efs að við munum nokkurn tíma ná því, né bragða jafn gott hreindýrakjöt og hina árlegu jólaboðssteik afa. Ómetanlegt hefur verið að geta hringt í hann og leitað ráða varðandi eldamennskuna. Á aðfangadag fórum við yfir jólamatinn í sameiningu og afi vildi ólmur miðla fróðleik þótt  slappur væri hann þann daginn.

Blíðari og ljúfari maður var vandfundinn. En afi var líka hörkutól, sem kvartaði sjaldan. Allt of sjaldan. Ekki einungis kenndi hann okkur að elska og virða náungann heldur ól hann með fordæmi sínu svo dugleg og stundvís börn að eftir er tekið. Vonandi skilar sér eitthvað af dugnaðinum til mín og minna, þó líklega sé útséð með að mér takist að læra stundvísina. Stundvísina sem hann vildi þó svo gjarnan kenna mér allt fram á síðasta dag. Afi var dugnaðarforkur og veigraði sér ekki við vinnu eða verkefni. Það virtist líka sama hvað herjaði á hann, alltaf virtist hann hafa betur. Þar til í vetur.

Og nú er hann farinn. Rigningin ber gluggana úti og miðað við vatnið á lyklaborðinu virðist húsið mígleka. Söknuðurinn er mikill og sár.

Elsku afi. Nafnbótina sem ég færði þér fyrir mörgum árum berðu um alla eilífð. Sú keppni var ójöfn. Ég treysti því að þú fylgist grannt með mér og  stelpunum og hvort sem við sitjum í skötu á Sögu eða við eldhúsborðið í Ársölum verðir þú alltaf á meðal okkar. Þú elskaðir ekkert meira en hana ömmu og óskaðir þess heitast að við pössuðum hana fyrir þig. Það er loforð sem verður auðvelt að efna. Takk fyrir allt elsku afi okkar.

Þín Siggi, Tinna Margrét, Þórdís Katla og Signý Hekla.

Tónlistinn 2013

Sá góði siður hefur tíðkast í ársskýrslu //cyberg klúbbsins að tónlistarstjóri birti lista yfir lög ársins. Fyrir nokkru varð sú breyting að upphaf starfsárs klúbbsins færðist frá hinu hefðbundna almanaksári (janúar) og fram til aprílmánaðar. Skilum á tillögum til tónlistastjóra hefur því seinkað en undirritaður hefur ekki látið það slá sig útaf laginu og haldið birtingu síns lista við janúarmánuð. Hér koma því þau lög sem flætt hafa um hina ýmsu tónlistarspilara í umsjá síðueiganda síðastliðið ár. Markverðast þegar horft er til baka er þrennt; einokun íslenskra laga í spilaranum, ótrúleg fjölbreytni í flóru tónlistarveita (kerfi/síður) sem notast er við og merkjanlega lítil tónlistarhlustun miðað við fyrri ár. Eitt af markmiðum ársins hjá undirrituðum hlýtur að vera að auka við hlustun á tónlist á árinu 2014, ekki er hægt að draga mikið úr henni.

Í ljósi einokunar á íslenskri tónlist er lagt upp með tvo lista, íslenskan og erlendan.

Íslenskt:

 • Halo – Hjaltalín (Beyonce ábreiða)
 • Ég bíð þín – Vök
 • Speed of dark – Emilíana Torrini
 • Talking – Dikta
 • She said – Retro Stefson
 • Brennisteinn – Sigur rós
 • Peacemaker – Monotown
 • Jackie O – Monotown
 • Salt – Mammút
 • Góða tungl – Samaris

Erlent:

 • One Way Trigger – The Strokes
 • GMF – John Grant
 • Afterlife – Arcade Fire
 • Step – Vampire Weekend
 • Do I Wanna Know – Arctic Monkeys
 • Sweater Weather – The Neighbourhood
 • Retrograde – James Blake
 • Get Lucky – Daft Punk
 • Weight – Mikal Cronin
 • Pink Rabbits – The National

Jólin eru að koma

Jólin nálgast og undirbúningur er hafinn í Fjallalind. Serían er komin á húsið og jólaljós og skraut í flestar hillur og glugga. Fjölskyldufaðirinn hefur ekki látið sitt eftir liggja og hent í bæði jólakrans, piparkökuhús og laufabrauð. Sýnidæmi 1, 2 og 3…

Fiskisúpa á mánudegi

Ég var svo ánægður með mánudagsmatinn minn að ég ákvað að skrásetja afrekið á veraldarvefinn. Eru matarblogg ekki að gera það gott þessa dagana?

Um einfalda en afar bragðgóða fiskisúpu er að ræða. Grunnurinn að uppskriftinni er líklega fengin úr góðri bók, en ég hef veitt mér talsvert frjálsræði í framkvæmd og vali hráefna.

Uppskriftin
4 gulrætur
2 laukar
1 vorlaukur
4 hvítlauksrif
Léttsteikt saman í olíu.

2-3 tsk Timian
1 tsk salt
2 dósir niðursoðnir tómatar
3 fiskiteningar
1 1/2 ltr vatn
Bætt útí og soðið í ca 15 mín.

800 gr ýsa
500 gr rækjur
Surimi
1/2 ltr mjólk

Bætt útí og látið malla í ca 5 mín.

Einfaldur en afar bragðgóður mánudagsmatur.

Tónlistin(n) 2012

Líkt og fyrri ár í aðdraganda árshátíðar, hefur tónlistarstjóri //Cyberg klúbbsins kallað eftir þeim lögum sem flæddu um hljómtæki klúbbmeðlima á liðnu ári. Þó nú sé kominn apríl reyndist það nokkuð þægilegt að grafa upp þau lög sem fengu hvað mesta spilun og flestar stjörnur hjá undirrituðum í Google Play á síðasta ári. Hér er því listinn yfir lögin sem ég legg til grundvallar árslistans, 2012:

Can Deny (Monotown)
Heimförin (Ásgeir Trausti)
Beach House (Myth)
Ayla (The Maccabees)
Hafið er svart (Jónas Sig)
1904 (The Tallest Man on Earth)
Retro Stefson (Julia)
Yet Again (Grizzly Bear)
Tenderloin (Tilbury)
Lonely Boy (The Black Keys)
War Hero (Biggi Hilmars)
Rabbit Hole (Temper Trap)
Montreal (The Weeknd)
Saint Nothing (Daniel Rossen)
New York (Snow Patrol)
Outlandish (Warrior/Worrier)
Yfir Borgina (Valdimar)
Angels (The XX)
Take a walk (Passion Pit)
Madness (Muse)
Heaven (The Walkmen)
Hallways (Islands)

Heimaræktin

Í veikri von um að komast í eilítið betra form hefur húsfaðirinn i Hvarfinu komið sér af stað í æfingaprógram sem keyrt er áfram á stofugólfinu. Fjárfest var í æfingadýnu í Rúmfatalagernum og síðan hefur allt traust verið lagt á video-þjálfun á netinu. Í morgunsárið var farið í gegnum þrjár æfingar með dyggri aðstoð Þórdísar Kötlu.

Upphitun…

Æfing…

Teygjur í lokin…